Jólabjórinn 2012

Íslensku jólabjórarnir í ár eru komnir og ættu ekki að valda vonbrigðum. Þeir eru ólíkir að upplagi en ef reyna á að alhæfa eitthvað um stíl ársins mætti kannski segja að bruggmeistararnir hafa verið svolítið varkárari en oft áður. Það er ekki verið að fara mikið út fyrir rammann og taka mikla áhættu Bjórarnir eru karakterminni en þeir hafa stundum verið en á móti þurrari og aðgengilegri – fleiri sem að höfða til fjöldans og gæðin eru jafnari en oft hefur verið.

Bjórsmakkarar Vínóteksins komu saman á KEX fimmtudaginn 15. nóvember og smökkuðu sig í gegnum íslensku jólabjórana auk þess sem að óvæntum dönskum gestum frá danska framúrstefnubrugghúsinu Mikkeller var smeygt inn.

Þeir sem smökkuðu bjórana voru Steingrímur Sigurgeirsson ritstjóri Vínóteksins, Þorri Hringsson, myndlistarmaður og vínsmakkari, R. Freyr Rúnarsson, sem heldur úti bjórsíðunni bjorbok.net og Haukur Heiðar Leifsson, sem skrifar á ratebeer og bloggar á Malted Thoughts (maltedthoughts.blogspot.com).

Bjórarnir voru smakkaðir blint þ.e. smakkarar vissu ekki hvaða bjór þeir voru að smakka hverju sinni að öðru leyti en því að bjórunum var skipt upp í tvo flokka. Fyrst voru smakkaðir hefðbundnir bjórar, lagerar og bock. Að því búnu voru smakkaðir öflugri kraftbjórar.

Við smökkuðum nær alla þá íslensku bjóra sem nú eru í boði auk þess sem að bætt var inn erlendum „jóker“, fjórum bjórum frá danska ofurbjórframleiðandanum Mikkeler.

Jólabjórarnir eru árstíðabundin vara, bjór sem er lagt í sérstaklega fyrir sölu á tilteknu tímabili. Við nálguðumst því bjórana sem slíka, þ.e. er ekki einungis hversu góðir þeir væru sem „bjórar“ heldur jafnframt hversu vel þeir stæðu undir væntingum sem „jólabjórar“, bjórar sem hefðu sem slíkir einhverja sérstöðu í stíl og karakter. Einkunnir voru gefnar á skalanum 1-5.

Hér koma síðan niðurstöðurnar – í þeirri röð sem að bjórarni voru smakkaðir.

Tuborg Julebryg

Mildur, þægilegur og einfaldur. Áreynslulaus bjór sem ætti að henta öllum. Svolítið humlaður í nefi með smá jólalegri sætu.

Einkunn 3 (bil 2,5-3,5)

Víking Jólabjór

Ferskur, örlítið sætur. „Klassískur Vienna lager“ eins og einn orðaði það, svolítið þýskur í stílnum en með Vienna lager er yfirleitt vísað til þýska stílsins þó svo að Vín sé vissulega höfuðborg Austurríkis. Flottur fyrir sinn stíl, þægilegur og einfaldur. Kannski ekki mikið að gerast og mætti kannski „jóla“ aðeins meira upp.

Einkunn 2,5 (einn vildi gefa 3)

Jólagull

Fallegur jólarauður blær á bjórnum og froða hangir vel inni. Beiskur, þurr, kryddaður, áberandi humlar. Byrjar hátt en fer beint niður. Bragðið veldur smá vonbrigðum miðað við hvað nefið lofar. Sætur keimur og svo hverfur hann. Ekkert jólabragð og svolítið flatur og vatnskenndur í endann.

Einkunn: 2,5 (einn vildi gefa 2)

Steðji Jólabjór

Djúpur, rósrauður, ryðleginn litur, flottur. Jólalegur að sjá, „gaman að bera þennan fram á jólaborðið“. Í nefi strax eitthvað annað í nefi, endar í miklum lakkrís sem kemur skemmtilega út. Svolítið kaflaskiptur, ekki of sætur, ekki of beiskur. Virkilega vel heppnað afbrigði af lager, góð fylling, smá toast í restina.

Einkunn 3,5 (einn vildi gefa 4)

Ölvisholt Jólabjór

Dökkur, vínrauður á lit. í nefi karamella, negull og appelsína, jólalegur. Fyllingin er létt til meðal, mjög góður í nefi, töluvert kryddaður. Það er mikið um að vera, mikið af reyktu malti. „Þetta er öruggt skref, án þess að vera leiðinlegur. Bjór fyrir alla, ekki bara bjórnörda,“ sagði einn smakkarinn.“Þetta er það sem allir vilja,“ sagði annar. „Ekta bjór til að fá sér í skíðabrekku,“ sagði sá þriðji. Eina sem mætti setja út á hann er að hann mætti hafa ögn meira humalbit.

Einkunn 4,5 (einn vildi gefa 4)

Gæðingur Jólabjór

Brúnn, djúp rauðbrúnn á lit. Froðan áberandi ljós. Súkkulaði, rúsínur og kröftug kakó-angan. Kolsýran í hærra lagi, freyðir svolítið mikið og er nokkuð stuttur og fljótur að fara. „Mikið bragð í fyrstu en flýgur svo á hausinn,“ sagði einn. Maður bjóst við sætari bjór miðað við nefið og kakó í nefi skilar sér ekki í munninn. Alls ekki slæmur en mætti vera í meira jafnvægi.

Einkunn 3 (einn vildi gefa 2,5)

Jólabock

Brúnrauður út í kirsuberjalit, aðlaðandi að sjá. Lítið nef, smá karamella en bætir það upp með kröftugra bragði í nefi. Svolítið „málmkenndur“ og humlar mættu vera betri.

Einkunn 3 (einn vildi gefa 1,5)

Malt Jólabjór

Dökk, dökk, rauðbrúnn, smá kolablær á litnum. Ekkert í nefi. Töluvert of sætur, skortir humla á móti sætunni. Eitthvað svolítið gervilegt við hann í lokinn og vantar sárlega krydd. Gæti þó verið athyglisverður með appelsíni…

Einkunn 2,5 (einn vildi gefa 2)

Einstök Doppelbock

Vel balanseraður bjór með góða fyllingu, mjög þægilegur og ágætis eftirbragð. Góður aróma-prófíll, virkilega vandaður bjór. Karamelliseraður, reykur, þurrkaðir ávextir. „Sáttur við þennann,“ sagði einn. „Smellpassar með jólamatnum,“ sagði annar. Bjór fyrir þá sem eru til í að taka „smá áhættu“ án þess að fara yfir strikið.

Einkunn 4 (einn vildi gefa 3,5)

Giljagaur

Lítur virkilega vel út, rauðbrúnn út í appelsínugult með skýjaðri froðu. Í nefi appelsínur, mandarínur, börkur og kóríander. Flottur humlaprófíll, góður og balanseraður með fínni beiskju á móti ávextinum. Það eru samt engin krydd í honum heldur ótrúleg blanda af humlum og gerjum sem gefa þetta karaktermikla bragð. „Algjört brewer’s art,“ var eitt kommentið. Eina sem sett var út á hann var að hann væri of ungur. Bjór sem þessum á að leyfa að eldast í ár. Það hefði átt að brugga hann í fyrra!

Einkunn 4-4,5

Mikkeller Hoppy Lovin’ Christmas

Dæmigerður og traustur Indian Pale Ale-litur. Mikill kóríander í nefi, töluverð sýra, löng, eftirliggjandi beiskja, þurr. Svakalega flottur bjór…en kannski ekki mjög jólalegur. Eiginlega meiri sumar hveiti-Indian Pale Ale en jóla-eitthvað.

4 (einn vildi gefa 4,5)

Mikkeller Red White Christmas

Fallegur bjór, góð lykt, kóríander, appelsínubörkur, smá portari. Kröftugur og áfengur. Engin stjörnuskot en allt mjög mjúkt og fínlegt, svolítið sætur kemur. Rosalega fínn bjór og balanseraður.

Einkunn: 4 (einn vildi gefa 4,5)

Mikkeler Fra.. TIl..

Bjór í Imperial Porter stílnum, daðrar við Stout. Áfengt nef, smá spritt, reykur, espresso-kaffi og dökkt súkkulaði. Jafnvel vottur af rifsberju. Flott froða. Tignarlegur en kannski ekki mjög frábrugðin öðrum góðum porterum, vantar pínu þéttleika. „Ekkert jólalegt við hann, þetta er bara góður Porter,“ sagði einn. Gæti verið mjög athyglisverður með hangikjöti. Svolítill „nördabjór“.

Einkunn: 4 (einn vildi gefa 3,5)

Mikkeller Santa’s Little Helper

Mjög dökkur og menn voru sammála um að af honum væri „æðisleg lykt“. Döðlur, smá spritt og málmur. Sætur, sprittaður, nokkuð þungur. Háir honum hvað hann er sprittaður. Bjór sem fer vísvitandi út fyrir rammann þó að hann sé kannski ekki „fullskrokka kvikindi“ eins og einn orðaði. Bjór til að sötra fyrir framan arineldinn.

Einkunn 4-4,5

Deila.