Jólabjórinn 2012: Ölvisholt ber af, Giljagaur sterkur

Það er óneitanlega vísbending um að jólin séu að nálgast þegar að jólabjórarnir koma í verslanir og ekki spillir fyrir að þeir koma bæði fyrr og eru fleiri en jólasveinarnir. Bjórsmakkarar Vínóteksins komu saman á KEX fimmtudaginn 15. nóvember og fóru yfir flóru íslensku jólabjóranna.

Þeir sem smökkuðu bjórana voru Steingrímur Sigurgeirsson ritstjóri Vínóteksins, Þorri Hringsson, myndlistarmaður og vínsmakkari, R. Freyr Rúnarsson, sem heldur úti bjórsíðunni bjorbok.net og Haukur Heiðar Leifsson, sem skrifar á ratebeer og bloggar á Malted Thoughts (maltedthoughts.blogspot.com).

Bjórarnir voru smakkaðir blint þ.e. smakkarar vissu ekki hvaða bjór þeir voru að smakka hverju sinni að öðru leyti en því að bjórunum var skipt upp í tvo flokka. Fyrst voru smakkaðir hefðbundnir bjórar, lagerar og bock. Að því búnu voru smakkaðir öflugri kraftbjórar.

Við smökkuðum nær alla þá íslensku bjóra sem nú eru í boði auk þess sem að bætt var inn erlendum „jóker“, fjórum bjórum frá danska ofurbjórframleiðandanum Mikkeler.

Jólabjórarnir eru árstíðabundin vara, bjór sem er lagt í sérstaklega fyrir sölu á tilteknu tímabili. Við nálguðumst því bjórana sem slíka, þ.e. er ekki einungis hversu góðir þeir væru sem „bjórar“ heldur jafnframt hversu vel þeir stæðu undir væntingum sem „jólabjórar“, bjórar sem hefðu sem slíkir einhverja sérstöðu í stíl og karakter. Einkunnir voru gefnar á skalanum 1-5.

Almennt voru gæði bjóranna góð en niðurstaðan var hins vegar skýr og um hana voru allir í hópnum sammála.

Það var einn bjór sem stóð upp úr sem jólabjór ársins 2012, Jólabjórinn frá Ölvisholti. Eða eins og einn í smakkhópnum orðaði það: „Ef Íslendingur vill kaupa jólabjór þá er þetta hann.“ Ölvisholtsbjórinn er afskaplega karaktermikill, fallega dökkur út í vínrautt með angan af reyk,, karamellu, appelsína og negull. Sem sagt afskaplega jólalegur. Fylling er meðal. Þarna er mikið um að vera, mikið af reykmiklu malti. „Þetta er öruggt skref, án þess að vera leiðinlegur. Bjór fyrir alla, ekki bara bjórnörda,“ sagði einn smakkarinn.“Þetta er það sem allir vilja,“ sagði annar. Eina sem mætti setja út á hann er að hann mætti hafa ögn meira humalbit.

Í flokki kraftbjóranna var það hins vegar Giljagaur frá Borg Brugghús sem hafði vinninginn. Strax í útliti vakti hann athygli, rauðbrúnn út í appelsínugult með skýjaðri froðu. Í nefi appelsínur, mandarínur, börkur og kóríander. Flottur humlaprófíll, góður og balanseraður með fínni beiskju á móti ávextinum. Það eru samt engin krydd í honum heldur ótrúleg blanda af humlum og gerjum sem gefa þetta karaktermikla bragð. „Algjört brewer’s art,“ var eitt kommentið. Eina sem sett var út á hann var að hann væri of ungur. Bjór sem þessum á að leyfa að eldast í ár. Það hefði átt að brugga hann í fyrra!

Margir komu vel út og má nefna jólabjór Steðja og Einstök Doppelbock. Við smökkuðum líka bjórana ´frá Gæðing, Víking og Ölgerðinni og þótt þeir hafi ekki náð sömu hæðum og Ölvisholt áttu sumir góða spretti. Mikkeler er síðan saga út af fyrir sig – hrikalega flottir bjórar þótt allir hafi ekki verið á eitt sáttir hve „jólalegir“ sumir þeirra voru. En meira um smökkunina í heild og hvernig allir bjórnarnir voru að standa sig má lesa með því að smella hér.

Deila.