Risarækjur með kókos og chili

Þessi uppskrift er mikil bragðsprengja en hún kemur frá Bengal í norðausturhluta Indlands. Þetta er hitabeltissvæði og matargerðin er bragðmikil og sterk.

16 risarækjur (fyrir 4)

 • 1/2 tsk túrmerik
 • 1/2 tsk chili-krydd
 • klípa af salti

Afþíðið rækjurnar. Setjið í skál ásamt kryddunum. Veltið þeim vel upp úr kryddunum og látið standa í hálftíma.

 • 1-2 tsk heil cummin fræ
 • 3 grænir chilibelgir (heilir)
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 1 msk pressaður hvítlaukur
 • 1 msk rifinn engifer
 • 5 tsk sinnepskrydd (dry Mustard) eða sambærilegt magn af muldum gulum sinnepsfræjum.
 • 1 tsk Maizena
 • 2,5 dl kókosflögur (eða rifin fersk kókoshneta)
 • 1 lúka kóríander, fínsaxaður
 • olía

Blandið sinnepskryddi, maizena og smá vatni saman. Geymið.

Hitið olíu á pönnu. Setjið cummin-fræin út á. 15-30 sekúndum síðar eru chilibelgirnir og laukurinn settir á pönnuna. Mýkið á miðlungshita þar til að laukurinn er orðinn mjúkur og farinn að taka á sig smá lit. Það getur tekið allt að tíu mínútur. Bætið þá engifer og hvítlauk út á og hrærið saman við í um eina mínútu.

Bætið nú sinnepsmaukinu út á ásamt kókosflögunum og steikið í fimm mínútur. Hellið um 1 dl af vatni út á og sjóðið niður (3-4 mínútur) . Hrærið vel í öllu með sleif. Þegar þykk sósa er farin að myndast er rækjunum bætt út og steiktar í örfáar mínútur. Blandið kóríander saman við og berið fram.

Deila.