Haukur bloggar: Mikkeller & Friends og fleiri bjórbarir

Mikkeller & Friends er bar á Stefansgade á Norrebro. Hann er mun stærri en „gamli“ Mikkeller Bar á Viktoriagade og hreint ótrúlegur staður. Þar eru 40 kranar sem samanstanda af þvi besta sem Mikkeller, To Øl og fleiri dönsk „míkró“ brugghús bjóða uppá. Einnig eru gestabjórar þar oft hreint ekki af verri endanum.

Hugsuninn á bak við staðinn var að búa til besta bar í heimi og verður því haldið fram hér að það hafi tekist. Á þessum bar er allt til staðar, kranaúrval sem er of gott til að vera satt og telur flöskulistinn hundruði tegunda, þar á meðal marga af allra bestu bjórum heims. Þessi bar er gríðarlega skemmtilegur, í senn er hægt að tala saman, enda hönnunin á rýminu hreint frábær, og drekka frábæran bjór án þess að vera fyrir öðrum bargestum. Sérstakir klefar eru meðfram öllum veggjum með einskonar vængjum sem taka á sig hljóð frá umhverfinu. Þessi snjalla hönnun kemur í veg fyrir að það myndist of mikill kliður á staðnum. Barinn er listaverk fyrir augað og var til að mynda tekinn fyrir í nýjasta tölublaði Wallpaper.

Mikkeller Bar

 

Bjóráhugamenn ættu ekki einungis að staldra við á börum Mikkeller. Í Kaupmannahöfn er gríðarlegt úrval ölbara og bruggpöbba. Norrebro Bryghus hefur oft verið áfangastaður Íslendinga og Ölbaren á Elmegade er gríðarlega vinsæll.

Þá hefur bjórmenning Kaupmannahafnar að geyma litla perlu sem fáir vita af og er steinsnar frá Mikkeller Bar. Fermentoren á Halmtorvet er frábær bar, heimilislegur með 20 krana sem hafa að geyma afar sjaldgæfa og óaðgengilega bjóra. Flöskulistinn er hreint ótrúlegur en þar er mikil áhersla lögð á súra bjóra og stenst hann Mikkeller Bar fullan snúning. Eigendurnir eru skemmtilegir og ef vel viðrar að þá er grillið tekið út og grillað fyrir fastagesti. Fyrir utan barinn eru bekkir og frábært að sitja á sólríkum degi.

Copenhagen Beer Celebration er hreint ótrúlegur viðburður og var aðeins haldinn í annað sinn núna í ár. Þetta er frábært tækifæri fyrir bjórunnendur í Evrópu að smakka allt það besta sem bæði Evrópa og Bandarikin hafa fram að færa í „míkró“ brugg menningunni. Von er á að hátiðinn verði haldin í þriðja sinn á næsta ári og um að gera að tryggja sér miða snemma, því þetta er lifsreynsla sem enginn bjór unnandi gleymir.

Deila.