Kopparberg – síder í stað eðalmálma

Það er ekki hægt að rækta vínþrúgur alls staðar en það er hægt að búa til ljúffenga drykki úr mörgum öðrum ávextum. Epli eru til dæmis nýtt á ýmsan hátt á þeim slóðum sem teljast „norðlægar“ þótt við Íslendingar myndum nú eflaust fagna loftslagi þar sem hægt væri að vera með gjöful eplatré í hverjum einasta garði. Þetta á t.d. við um Bretagne og Normandie í Frakklandi, Þýskaland og Svíþjóð, þar sem eplarækt er mjög vinsæl.

Þekktasti epladrykkurinn er síder eða cider sem er drykkur þar sem eplasafinn hefur verið látinn gerjast og er yfirleitt áþekkur bjór í áfengismagni er stundum er hann í „pilsner-styrkleika“ og stundum alveg áfengislaus. Sums staðar er síder kallaður eplavín.

Þekktasti síder Norðurlanda er sá frá Kopparberg í Svíþjóð, sem kennt er við samnefndan smábæ. Kopparberg hefur framleitt eplasíder frá því á nítjándu öld, þegar á fjórða tug lítilla eplavínshúsa mynduðu eina stóra heild og þetta er mikilvægasta atvinnugreinin í þessu fjögur þúsund manna samfélagi. Upphaflega byggðist Kopparberg (eins og raunar má lesa út úr nafninu) upp sem námabær en þegar eðalmálmarnir voru á þrotum tók framleiðsla á því sem Svíar kalla svagdrycka við enda bærinn líka þekktur fyrir lindarvatnið sitt sem notað var af brugghúsunum.

Það fjaraði hins vegar undan Kopparberg á síðari hluta síðustu aldar. Svissneskt fyrirtæki keypti brugghúsiðog það endaði ekki vel og reksturinn stöðvaðist. Þá komu Bronsmans-bræðurnir til sögunnar sem ákváðu að endurreisa Kopparberg-brugghúsið. Þeir ákváðu að taka upp framleiðslu á nýrri tegund af síder, hurfu frá „enska“ stílnum sem hafði verið ríkjandi í síder-framleiðslu í Svíþjóð og þróuðu fram svolítið sætari og ferskari stíl af síder.

Á síðari árum hafa komið margvíslegar nýjar útgáfur frá Kopparberg þar sem alls kyns berjum og ávöxtum er blandað saman við eplin til að auka við bragðflóruna. Hér á landi hafa t.d. verið fáanlegir Kopparberg Wildberry og Kopparberg Strawberry Lime. Þetta eru afskaplega ferskir drykkir með miklu, hreinu ávaxta- og berjabragði og telst Kopparberg nú til framsæknustu drykkjarframleiðenda í Svíþjóð.

Deila.