Gómsæt súkkulaðimús

Ég gerði þessa einföldu súkkulaðimús um daginn en þessi klassíski franski eftirréttur mousse au chocolat er alltaf jafn unaðslegur endir á máltíð.   Það eru til margar útfærslur af súkkulaðimús.  Stundum notar maður einungis eggjahvíturnar eins og í þessarri einföldu franskri súkkulaðimús  eða bæði eggjahvítur og eggjarauður eins og í súkkulaðimús með rommi.

Í þessari uppskrift notum við bæði hvíturnar og rauðurnar og að sjálfsögðu gott, dökkt súkkulaði.

  • 100 grömm dökkt súkkulaði (70%)
  • 25 grömm smjör
  • 2 eggjarauður
  • 2 eggjahvítur
  • 2 msk sykur
  • 1,5 dl rjómi

Skerið súkkulaðið og smjörið í bita og bræðið yfir vatnsbaði.  Takið af hitanum og hrærið eggjarauðurnar ei út í eina í einu.

Stífþeytið eggjahvíturnar ásamt sykrinum og blandið þeim varlega  út í eggjahræruna. Það er best að gera það með sleif eða sleikju.  Þeytið síðan rjómann og bætið honum við blönduna.

Setjið í glös (passar í cirka 4 glös) og kælið í ísskáp í nokkra klukkutíma.

Deila.