Nautalund með gráðostasósu og risotto

Nautalund og gráðostur er klassísk samsetning og gjarnan er notaður ítalskur Gorgonzola-ostur í slíkar samsetningar. Íslenski gráðaosturinn hentar hins vegar ekki síður vel. Hér förum við alla leið og gerum bæði gráðostarisotto og gráðostasósu. Auðvitað er líka hægt að fara hálfa leið og láta annað hvort sósuna eða risotto duga.

Risotto með gráðaosti

 • 4 dl Arboriohrísgrjón
 • 1 l kjúklingasoð eða sjóðandi heitt vatn og kjúklingakraftur
 • 2 dl hvítvín
 • 100 g gráðaostur
 • 4 skalottulaukar
 • 4 hvítlauksgeirar
 • olía
 • nýmulinn pipar

Saxið laukana fínt og mýkið í olíu á pönnu. Bætið grjónunum út á og veltið um á heitri pönnunni í um 2 mínútur. Hellið þá hvítvíninu út, látið sjóða niður í 1-2 mínútur. Byrjið þá að ausa soðinu út á pönnunna, fyrst þannig að það þekji grjónin. Bætið vatni út á eins og þarfi en það tekur um 18 mínútur að sjóða grjónin. Takið þá pönnuna af hitanum, bætið muldum ostinum saman við bragðið til með pipar.

Gráðostasósa

 • 5 dl rjómi
 • 100 g gráðaostur
 • væn luka af rifnum parmesan
 • lúka af fínt saxaðri steinselju
 • salt og pipar

Setjið rjómann í pott og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið á miðlungshita í um 25-30 mínútur eða þar til að rjóminn er orðinn að þykkum jafningi. Hitinn þarf að vera nægur til að halda suðu en ekki það mikill að rjóminn sjóði upp úr. Takið af hitanum og hrærið ostunum saman. Bragðið til með nýmuldum pipar og smá salti ef þarf (farið varlega því ostarnir eru saltir).

Nautalundin er brúnuð í smjöri á pönnu á öllum hliðum og síðan sett inn í 125 gráðu heitan ofn þar til að kjarnhitinn er kominn í um 63 gráður. Það gæti tekið um 20 mínútur. (Fer eftir hitanum á kjötinu þegar að þið byrjið að elda það – best er að það fái að ná stofuhita). Takið kjötið úr ofninum, leyfið því að jafna sig í 5 mínútur og sneiðið þá niður.

Hér þarf nokkuð kröftugt rauðvín tll að vega upp á móti ostinum. Við mælum með kröftugum Ástrala á borð við Peter Lehmann Stonewell Shiraz.

Fleiri uppskriftir með nautalund finnur þú með því að smella hér.

Deila.