Domaine de Malandes Chablis 1er Cru Vau de Vey 2012

Domaine de Malandes er meðalstórt (á mælikvarða svæðisins) vínhús í Chablis undir stjórn kvenskörungsins Lyne Marchive. Þetta er flott vínhús, við heimsóttum það síðastliðið sumar og má lesa nánar um það með því að smella hér.

Vau de Vey er ein af „Premier Cru“-ekrunum í Chablis, þetta er austurhlíð með mjög kalkríkum jarðvegi, ein sú brattasta af Chablis-ekrunum.

Þetta er auðvitað mjög ungur Chablis Premier Cru. Ferskur sítrus, sítrónubörkur, hvít blóm og fennel, þurrt, sýrumikið og míneralískt. Ávöxturinn í munni hefur mikla dýpt, sýran er skörp og vínið blómstrar með góðum mat. Notið t.d. með þorskhnakka á seljurótarmauki.

3.990 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.