Domaine de Malandes Petit Chablis 2011

Flest vínhúsin í Chablis í norðurhluta Búrgund eru ekkert afskaplega stór og Domaine de Malandes með sína 28 hektara er því nokkurn veginn í millistærð. Vínhúsinu hefur verið stjórnað um árabil af hinni rösku Lyne Marchive en hana heimsóttum við síðasta sumar og má lesa nánar um Domaine de Malandes hér.

Petit Chablis eru vín úr þrúgum af ytri ekrum héraðsins, ódýrari en Chablis og að maður tali nú ekki um Premier Cru og Grand Cru vínin. Frá húsum eins og Malandes eru þetta hins vegar afbragðs vín. Ávöxturinn er tær, skarpur og djúpur, þykkur sítrus, míneralískur og út í suðræna ávexti. Þétt, sýrumikið og þægilegt.

2.590 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.