Sælkerastaðir leysa vegasjoppuna af

Ótrúlegur vöxtur í ferðaþjónustu síðastliðinn ár er að valda straumhvörfum í tækifærum við ferðalög um landið. Það er liðin tíð að ferðalangar innanlands geti einungis valið úr vegasjoppum sem bjóða upp á sömu sveittu hamborgarana og samlokur í plasti. Og þrátt fyrir að vissulega séu sögur um tvö þúsund króna kökusneiðar og þúsund króna kaffibolla sannar þá eru sem betur fer einnig margir nýjir staðir komnir til sögunnar sem bjóða ferðalöngum skemmtilega og góða upplifun.

Ágætt dæmi um það er MicroBar and Bed á Sauðárkróki sem að við sögðum frá á dögunum (sjá með því að smella hér) sem er flottasti bjórbar á Íslandi.

Á Snæfellsnesi hafa Hótel Búðir löngum verið eini alvöru viðkomustaðurinn en það hefur breyst. Á Stykkishólmi er að finna bæði heimsklassa gistingu og frábæran mat. Það ætti enginn að láta Hótel Egilsen fram hjá sér fara. Lítið boutique-hótel í einstaklega smekklega upp gerðu og fallegu gömlu húsi þar sem virðist hafa verið hugsað fyrir hverju einasta smáatriði ekki síður en mikilvægum atriðum á borð við rúmdýnum fylltum með kókoshnetutrefjum. Það gerist ekki betra. Það er ekki veitingastaður á Egilsen en huggulegur bar með góðu vínúrvali. Hinum megin við götuna er svo að finna Narfeyrarstofu yndislegan veitingastað þar sem m.a.er hægt að fá sjávarfang úr Breiðafirði á borð við bláskel og hörpufisk. Réttirnir eru nefndir eftir staðbundnum örnefnum og það má t.d. mæla með Súgandiseya, þorskhnakka með byggi, hvítlauk og basil.

Á Vestfjörðum stendur Tjöruhúsið á Ísafirði auðvitað upp úr en það ættu allir á leiðinni um Vestfirði einnig að koma við á Þingeyri og fá sér súpu í Simbahöllinni, sögufrægu kaupmannshúsi. Þetta er ótrúlega sjarmerandi kaffihús og belgísku vöfflurnar sem eru einkennisréttur staðarins eru einstakar.

Hvað gistingu varðar má mæla með Einarshúsi á Bolungarvík, enn einu gömlu og glæsilegu húsi sem fengið hefur nýtt hlutverk. Það hafa skipst á skin og skúrir í sögu Einarshúss og það hefur verið jafnt hús sorgarinnar sem gleðinnar (sögu hússins eru gerð skilmerkileg skil á fróðlegum veggspjöldum). Það er þægilegt og ljúft andrúmsloft í Einarshúsi og herbergin eru afskaplega smekkleg. Veitingastaðurinn á Einarshúsi er þokkalegur og myndi batna verulega ef ekki væri boðið upp á pakkasósur með kjötinu.

Á Norðurlandi ættu allir að kíkja á Rub 23 á Akureyri. Einn flottasti staður landsins í húsnæði sem upphaflega hýsti Friðrik V sem því miður varð að loka (en hefur nú opnað á ný í Reykjavík). Rub 23 reyndi fyrir sér í Reykjavík en staðurinn náði aldrei sama flugi né stemmningu og fyrir norðan og hefur nú lokað. Sushipizzan er t.d. möst og vínlistinn er til fyrirmyndar.

Austurland er líka að eignast nýja og flotta staði. Í júni opnaði Hildebrand hótel á Neskaupstað, sem er með glæsilegustu hótelum utan Reykjavíkur, mikill metnaður í gangi. Það á líka við um bistro-veitingastaðinn Kaupfélagsbarinn sem býður upp á ágætt sushi og fiskrétti. Staður sem eflaust á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir ferðamennsku í Norðfirði.

Á Höfn kemur svo auðvitað ekkert annað til greina en humar og hann er hægt að fá á nokkrum stöðum, Humarhöfnin er til húsa í gömlu kaupfélagshúsnæði (eins og Hilderbrand á Neskaupstað) og sérhæfir sig í humri, eins og nafnið gefur til kynna. Og það má líka fá fínasta humar á Kaffi Hornið, sem er til húsa í bjálkahúsi.

Slippurinn

Sé haldið áfram um Suðurlandið verður auðvitað að kikja til Vestmannaeyja og skoða Eldheima,  þar sem hægt er að fræðast um Vestmannaeyjagosið og skoða hús sem grafið hefur verið upp úr hrauninu. Í Eyjum er nú líka að finna frábæran veitingastað – Slippinn – í einu elsta steinsteypta húsi bæjarins við höfnina.

Þegar aftur er komið upp á landi þarf ekkert að svelta á leiðinni í bæinn. Hvers vegna ekki að stoppa á hinu sígilda Fjöruborði og athuga hvort humarinn standist samkeppnina við Höfn?

 

Þetta er auðvitað langt í frá tæmandi listi – einungis nokkrir staðir sem hafa orðið á leið okkar í sumar. Endilega látið vita af fleiri spennandi áningarstöðum….

Deila.