Andarbringur með franskri grænpiparsósu

Frakkar kalla sósu sem þessa sauce au poivre vert og þær er hægt að gera á margan hátt, með og án rjóma. Grænpiparsósurnar eru vinsælar með nautakjöti en ekki síður er önd og grænpiparsósa klassísk samsetning. Ef þið viljið taka grænpiparsósuna með öndinni alla leið þá mælum við með uppskriftinni sem þið finnið með því að smella hér. Ef þið viljið hins vegar gera einfalda, ljúffenga og fljótlega grænpiparsósu þá er uppskriftin hér á eftir málið.

Andarbringurnar eldum við svo eins og alltaf samkvæmt leiðbeiningunum sem að þið finnið með því að smella hér.

  • 2 msk græn piparkorn
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 skalottulaukur, fínsaxaður
  • 1/2 dl koníak eða brandí
  • 1 msk kálfakraftur (t.d. Bong Touch of Taste)
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk Dijon-sinnep

Byrjið á því að merja piparkornin. Það má t.d. gera með því að setja þau á skurðbretti og valta kökukefli yfir þau. Geymið piparkornin. Saxið skalottulaukinn fínt.

Við gerum sósuna á sömu pönnu og við steiktum bringurnar á. Byrjið á því að hella mestu af andarfitunni frá en skiljið eftir um matskeið. Geymið fituna, það er frábært að elda upp úr henni, t.d. steikja kartöflur.

Mýkið skalottulaukinn í andarfitunni á pönnunni á miðlungshita í 2-3 mínútur. Hækkið þá hitann og hellið koníakinu út og hreinsið upp skófarnar. Þetta heitir „deglacer“ á frönsku kokkamáli og er gert til að ná upp bragðinu sem þarna er. Hellið næst kálfakraftinum og sojasósunni út. Ef þið eigið skvettu af hvítvíni er um að gera að láta hana fylgja með.

Hrærið um á pönnunni og hellið rjómanum út á. Látið hann malla á miðlungshita þar til að hann fer að þykkna. Bætið þá piparkornunum og sinnepinu saman við. Látið malla í 1-2 mínútur í viðbót.

Skerið andarbringurnar í sneiðar og setjið á disk. Hellið sósunni yfir. Með þessu er mjög gott að hafa flotta kartöflumús, t.d. samkvæmt uppskriftinni sem þið finnið með því að smella hér. Einnig sykurbaunir eða strengjabraunir. Forsjóðið baunirnar og steikið stutt á pönnu – t.d. með smá andarfitu.

Önd elduð á þennan hátt er frábær með góðu rauðvíni, það má til dæmis hafa með gott Bordeaux-vín á borð Brown-Lamartine.

 

Deila.