Risarækjur eru algengar í asískri matargerð og þetta „curry“ er í anda taílenskrar matargerðar, yndisleg blanda af lemongrass, engifer, kókos og auðvitað chili. Matargerð suðausturhluta Asíu getur verið ansi „heit“ en það er hægt að stjórna hitanum í þessum rétti með því að fræhreinsa chilibelgina.
- 300 grömm risarækjur (skelhreinsaðar)
- 3 stilkar af lemongrass (hvíti hlutinn af stilkinum)
- 1 msk saxaður engifer
- 5 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
- 3 rauðir chilibelgir (taílenskir), saxaðir
- 250 ml kókósmjólk
- 2 msk fiskisósa
- olía til steikingar
- salt og pipar
Maukið lemongrass, chili, engifer og hvítlauk í matvinnsluvél ásamt klípu af salti og pipar. Það getur þurft að bæta við matskeið af vatni til að ná góðu mauki.
Hitið olíu á pönnu á miðlungshita, helst góðri Wok-pönnu. Þegar olían er orðin heit er maukið sett á pönnuna og wokað í um tvær mínútur. Hellið þá helmingnum af kókosmjólkinni á pönnuna, blandið vel saman og látið malla í 3-4 mínútur eða þar til að olían fer að skilja sig frá. Þá eru rækjurnar settar út á og steikt áfram í um 4 mínútur eða þar til þær eru fulleldaðar. Hellið nú restinni af kókosmjólkinni, fiskisósunni og um desilíter af vatni á pönnuna. Hitið upp að suðu og látið malla í mínútu eða svo.
Berið fram með fínt söxuðum kóríander og lime.
Með þessu þarf svolítið öflugt hvítvín, t.d. góðan Gewurztraminer.