Grilluð bleikja með kirsuberjatómatapasta

Bleikja er tilvalin fyrir grilleldamennskuna og hér er dæmi um hvernig hægt er að skella upp gómsætum hádegisverði eða léttum kvöldverði á fljótlegan og einfaldan hátt. Bleikjan eldar sig nánast sjálf, það þarf lítið að gera fyrir hana og við grillum einnig kirsuberjatómata sem verða sætir og ljúffengir í bland við ólífuolíu, hvítlauk og steinselju og blöndum þeim saman við tagliatelle pasta.

Kryddið bleikjuna með salti og pipar og mjög fínt söxuðum kryddjurtum, t.d. steinselju. Setjið flökin á álpappír og grillið. Bleikjuflök þurfa ekki langan tíma, kannski 3-5 mínútur eftir hitanum á grillinu.

Fyrir pastað þurfum við:

  • 500 g tagliatelle
  • 2 box kirsuberjatómatar
  • 6 hvítlauksgeirar
  • 1 búnt flatlaufa steinselja
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið kirsuberjatómata í tvennt. Saxið hvítlaukinn og steinseljuna. Blandið tómötum, hvítlauk og steinselju saman í skál ásamt ólífuolíu. Saltið og piprið. Setjið á grillbakka.

Setjið bakkann með tómötunum á grillið og grillið undir loki í 6-8 mínútur. Sjóðið tagliatelle-pasta samkvæmt leiðbeiningum. Þegar tómatarnir eru tilbúnir er þeim blandað saman við pastað. Passið vel upp á safann sem lekur af þeim, þar er bragðið.

Berið bleikjuna fram með pasta og nýrifnum parmesanosti.

Með þessu eitthvað gott hvítt, t.d. Chablis frá góðum framleiðanda á borð við Domaine de Malandes.

Deila.