Vín ársins 2016

Þetta er búið að vera forvitnilegt ár í vínheiminum líkt og sést á þeim á þriðja hundrað vínum sem að fjallað hefur verið um hér síðustu mánuðina. Margt af því mjög jákvætt fyrir neytendur eins og það að gengisþróun hefur skilað sér í oft á tíðum verulegri lækkun á verði víntegunda, oft nemur lækkunin mörg hundruð krónum og jafnvel dæmi um að víni lækki um þúsund krónur eða meira á milli ára. Þetta er þó auðvitað ekki algilt, enda margar aðrar breytur sem hafa áhrif á verðið en gengi, s.s. verð frá framleiðanda og verð mismunandi árganga.

Við sáum áframhald á þeirri þróun sem að hófst í fyrra þegar að greinilegt var að neytendur voru farnir að sækja í auknum mæli upp verðstigann og kaupa betri og betri vín. Við sjáum framboðið á betri vínum aukast stöðugt og þá er ekki síst athyglisvert að sjá hversu frábær vín eru í boði í verðflokknum 3.000-4000 krónur og svo sem rétt þar fyrir neðan líka. Aukið framboð og hagstæðara gengi gerir að verkum að á þessu verðbili er hægt að gera alveg hreint frábær kaup í vínum.

Árið 2016 var líka árið þar sem að rósavínin fóru í fyrsta skipti að láta kræla á sér fyrir alvöru. Það hefur átt sér sannkölluð bleik bylting í löndunumí kringum okkur, jafnt Evrópu sem Bandaríkjunum á síðustu árum og sprenging í sölu rósavína. Það er kannski ekki hægt að tala um sprengingu í sölu rósavína en það varð þó töluverð aukning í sölu betri rósavína og sjaldan eða aldrei hefur framboðið verið meira. Við fjölluðum um þetta sérstaklega í þessari grein hér fyrr á árinu.

Með þessu framhaldi förum við líklega bráðum að velja líka rósavín ársins innan skamms, en látum það þó liggja á milli hluta að þessu sinni. Líkt og fyrri ár drögum við núna fram vín á þremur forsendum sem að vöktu sérstaka athygli okkar á því ári sem er að líða. Í fyrsta lagi bestu hvítvínskaupin, í öðru lagi bestu rauðvínskaupin og þriðja lagi það vín sem að öðrum ólöstuðum er það vín sem stendur hvað helstu upp úr að loknu árinu.

img_0200-2Bestu hvítvínskaupin

Við fjölluðum um nokkur ansi hreint góð hvítvín á árinu. Oft voru þau á frábæru verði miðað við gæði vínsins. Það má til dæmis nefna hið einstaklega flotta Albarino-vín frá Pazo Senorans sem að kom í búðirnar á árinu. Albarino-vín eru allt of allt of sjaldséð hér á landi, frábær vín og því ekki amalegt að fá eitt það besta sem framleitt er. Sömuleiðis Soave-vínið Suavi Soave Classico. En það er þó engu að síður annað ítalskt hvítvín sem hreppir hnossið nefnilega Bramito del Cervo Chardonnay. Frábært hvítvín á frábæru verði frá besta hvítvínshúsi Ítalíu.

Bestu rauðvínskaupin

Það var af nógu að taka þegar kom að góðum rauðvínskaupum. Vínin í Golden Reserve-línunni frá Trivento hafa lengi verið í miklu uppáhaldi en slá þau varla feilnótu. Á árinu bættist við nýtt vín í línuna hér á landi nefnilega Cabernet Sauvignon 2013, vín sem hefur hlotið frábæra dóma um allan heim og stendur svo sannarlega undir því. Einnig var ánægjulegt að sjá vín frá Allegrini, einu besta vínhúsi Veneto fáanleg hér á ný eftir langa fjarveru og í þeirra hópi var á frábæru verði vínið Palazzo della Torre. Það vín sem þó stendur upp úr þegar að horfum til baka er víni G Dehesa Gago 2014 frá vínhéraðinu Toro. Þvílíkt vín á þvílíku verði.

Vín ársins

Eftir að hafa farið yfir öll þau vín sem komu til greina og beitt útilokunaraðferðinni stóðu fjögur vín eftir og merkilegt nokk þá reyndust þau öll vera frá Ameríku nema eitt. Eitt bandarískt, eitt spænskt og tvö frá Chile. Í fyrra var hvítvínið frá spænska vínhúsinu Pago de Cirsus bestu hvítvínskaupin, í ár var það hins vegar ofurrauðvínið Pago de Cirsus Cuvée Especial sem að heillaði upp úr skónum. Algjörlega magnað vín og á einstaklega góðu verði.  Það eru mörg frábær vín framleidd í Napa-dalnum úr þrúgunni Cabernet Sauvignon en það er ekki oft sem að maður getur hampað víni sem er bæði frábært og á frábæru verði. Það á hins vegar um Louis M. Martini Cabernet Sauvignon sem er hverrar krónu virði. Vínið Don Melchor er einn af risunum í víngerð Chile, vín með langa og merkilega sögu. Það er einstakt að geta fengið tíu ára gamalt eintak af þessu víni úr hillu vínbúðanna, vín sem er þó enn ansi unglegt og sprækt og á mikið eftir. Ótrúlegt vín Don Melchor 2006. Það er þó annað vín frá Chile sem er vín ársins, nefnilega rauðvínið Coyam frá Bodegas Emiliana.  Vínið er blanda úr  þrúgunum Syrah, Carmenere, Merlot, Cabernet Sauvignon, Mourvédre og Malbec. Ræktunin er lífefld og lífræn. Aftur og aftur heillaði þetta vín á árinu og ekki spillir verðið fyrir.

 

Deila.