Antinori horfir til framtíðar

Nátturufegurðin í Toskana er oft slík að manni verður orða vant, gróðri vaxnar hæðirnar sem virðast innihalda öll litbrigði hins græna og taka á sig síbreytilega mynd eftir birtuskilyrðum. En fegurð þessa héraðs er ekki síður manngerð, hvort sem það eru heilu þorpin á borð við San Gimignano, Montepulciano og Barga, eða þá einstök listaverk á borð við Santa Maria del Fiore dómkirkjuna í Flórens eða torgið Piazza del Campo í Siena. Öll eiga  þessi mannvirki það hins vegar sameiginlegt að vera margra alda gömul. Það eru ekki margar byggingar sem standa up úr frá síðustu öld og forljótir iðngarðar og stórmarkaðir umlykja nú margar af fegurstu borgum og bæjum héraðsins.

Víngerðarhús Antinori-fjölskyldunnar í hjarta Chianti Classico einkennist hins vegar af sambærilegum metnaði og byggingarfræðileg stórvirki síðustu alda. Fjölskyldan hefur tengst víngerð í héraðinu frá fjórtándu öld og er stærsta vínfyrirtæki landsins í einkaeigu. Við áttum langt og fróðlegt samtal við Piero Antinori yfir hádegisverði í Flórens á sínum tíma þar sem að hann rakti framtíðarsýn sína og sýn á vínheiminn. Eitt af því sem að hann lagði áherslu á er að hann telur fjölskylduformið henta vínfyrirtækjum mun betur heldur en form skráðs félags. Fyrirtæki á markaði þurfi stöðugt að sýna fram á hagnað og arðbærni sem stangist oft á við þá langtímahugsun sem nauðsynleg sé í gæðavíngerð þar sem oft verði að leggja út í fjárfestingar sem byrji ekki að skila sér til baka fyrr en mörgum árum og jafnvel áratugum síðar.

Þessi langtímahugsun Antinoris birtist með skýrum hætti í víngerðinni Antinori del Chianti Classico. Í sinni einföldustu mynd er víngerðarhús ekkert annað en veggir utan um þau tæki og tól er þarf til að pressa þrúgur, gerja safa og geyma vín. Þarna hefur hins vegar verið reist bygging sem er sannkallaður óður til víngerðar héraðsins og héraðsins sjálfs. Þegar ekið er fram hjá byggingunni í Val di Pesa milli Flórens og Siena er auðvelt að taka ekki eftir henni, hún fellur nær fullkomlega að landslaginu í kring.

Víngerðin er hönnuð af Marco Casamonti hjá Archea Associati og verkfræðistofunni Hydea. Casamonti var ungur og tiltölulega óþekktur arkitekt þegar að hann setti fram hugmynd að húsínu en sú sýn sem einkenndi verkið fell algjörlega að hugmyndum Antinoris. Byggingin skiptist í þrjú lög sem tengd eru með tignarlegum hringstiga. Á fyrstu hæð er víngerð og tunnugeymsla en á annari hæð er safn um sögu Antinori-fjölskyldunnar og gestastofa en þetta er nú orðin einn helsti áningarstaður vínferðalanga í héraðinu.

Byggingin er þakin rúmlega fjórum hekturum af vínekrum er hefur verið komið fyrir á þakinu og gera hana nær óaðgreinanlega frá umhverfinu. Þarna er líka frábær veitingastaður þar sem að við hittum Allegru Antinori í hádegisverð og ræðum um þessa stórkostlegu byggingu og þróun fyrirtækisins, rétt um tveimur áratugum eftir að við áttum sambærilegt samtal við föður hennar. Hann er nú á níræðisaldri en kemur enn að störfum fyrirtækisins af fullum krafti sem stjórnarformaður. Dætur hans þrjár hafa hins vegar tekið við daglegum rekstri og skipta á milli sér verkum og er þetta í fyrsta skipti í sex hundruð ára sögu fyrirtækisins sem því er alfarið stjórnað af konum.

Þær taka við góðu búi en Antinori framleiðir mörg af þekktustu og bestu vinum Ítalíu. Rauðvínið Tignanello þar sem hefðir voru brotnar í Chianti með notkun Cabernet-þrúgunnar og varð kveikjan að hugtakinu “ofur-Toskana”-vín, þetta vín verður bara betra og betra með hverju árinu. Það sama má segja um önnur ofurvín hússins, svo sem Solaia og Bolgheri-vínið Guado al Tasso og Brunello-vínið Pian delle Vigne. Fjölskyldan hefur einnig leitað út fyrir sína sveit með kaupum á vínhúsum í Piedmont, Púglíu, Franciacorta og Úmbríu svo dæmi séu tekin en einnig í Kaliforníu og Ungverjalandi. Fyrr á þessu ári keypti fjölskyldan meirihluta í einum þekktasta hvítvínsframleiðanda Ítalíu, Jermann í Friuli í norðausturhluta landsins. Þó svo að Antinori framleiði eitt besta hvítvín Ítalíu á Castello della Sala-búgarðinum í Úmbríu hefur þunginn verið í rauðvínum. Með kaupunum á Jermann styrkist hvítvínsframboð Antinoris verulega.

Áskoranir framtíðarinnar felast ekki síst í því að viðhalda þessari arfleifð og takast á við breyttar aðstæður til víngerðar af völdum loftslagsbreytinga. Þar þarf að hugsa djarft og til langs tíma, eins og fjölskyldan hefur alltaf gert.

Lesið meira um ítalska víngerð í greinaflokknum okkar Vín 101

Deila.