Brio de Cantenac 2004

Vínin frá stóru og frægu vínhúsunum í Bordeaux hafa hækkað gífurlega í verði síðastliðinn áratug. Sem betur fer framleiða þau flest hver einnig vín númer tvö eða „deuxiéme“-vín þar sem yfirleitt eru notaðar þrúgur af yngri vínvið.

Annað vín Chateau Cantenac Brown í Margaux heitir Brio og er yfirleitt mjög góð, örlítið smækkuð útgáfa af stóra víninu. Dökkt, kröftug sólberjaangan og vindlatóbak, jörð og krydd, farið að sýna smá þroska, góð fylling og silkimjúk tannín. Hefur þróast mjög vel frá því að það var smakkað síðast fyrir ári. Frábært til neyslu núna, þó mælt sé með umhellingu 1-2 klukkustundum áður en vínið er borið fram. Með nautasteikum, hreindýri og rjúpu.

5.299 krónur.

 

Deila.