Rhône – Côtes-du-Rhone

Á tuttugu kílómetra breiðu og sextíu kílómetra löngu svæði  í suðurhluta Rhone er að finna sautján þorp sem geta auðkennt vín sín sem villages að því tilskildu að þau komi frá ekrum með minna uppskerumagni en venjulegar vínekrur og vínin sæti jafnframt strangari kröfum um lágmarksáfengismagn.

Þetta eru þorpin Rousset-le-Vignés, St. Pantaléon-les-Vignes, Valréas, Vinsobres, St. Maurice-sur-Eygues, Visan, Roaix, Cairanne, Rochegude, Rasteau, Séguret, Sablet, Chusclan, Laudun, St. Gervais og Beaume-de-Venise. Önnur vín á svæðinu eru einfaldari Côtes-du-Rhône, en undir þá skilgreiningu falla raunar einnig vín í norðurhlutanum af ekrum er liggja utan hinna skilgreindu svæða.

Vín Côtes-du-Rhône vekja blendnar tilfinningar. Þau geta verið létt og þægileg, með áþekkan þokka og góð, ung Beaujolais-vín. Þau geta einnig verið þokkalega mikil, krydduð og heit, suðræn og heillandi. Oftar en ekki eru þau hins vegar hreinasta sull, óspennandi og karakterlaus magnvín sem seld eru á spottprís í hillum stórmarkaða.

Þau eru ekki mörg þorpin í suðurhlutanum sem náð hafa skilgreiningunni cru, en þau þekktustu eru Châteauneuf-de-Pape, Gigondas og Vacqueyras. Og vissulega standa þau undir því. Gigondas fékk sína eigin appellation árið 1971 en vín svæðisins eru nær einvörðungu rauð. Grenache-þrúgan er ríkjandi en yfirleitt gegna Syrah og Mourvédre aukahlutverki. Hefðbundin Gigondas-vín eru geymd á gömlum eikartunnum en á síðustu árum hefur verið tískusveifla yfir í nýja eik, líkt og víðar. Gigondas eru sannkölluð vetrarvín, stór, mikil og harðgerð. Fullkomin með íslenskri villibráð, fjallalambi þar með töldu.

Vínekrur Vacqueyras eru ekki síður gamalgrónar og þorpið var eitt hið fyrsta sem hlaut sérstaka viðurkenningu er appellation-reglur voru settar fyrir Rhône árið 1937. Lengi vel var Vacqueyras eitt af village-þorpunum en fékk eigin appellation árið 1990. Vínekrur Vacqueyras ná yfir 1.000 hektara svæði (sem lýsir vel stærðarmun svæða í norður- og suðurhluta Rhône) og er heildarframleiðslan 30 þúsund hektólítrar á ári. Rauðvín eru 95% framleiðslunnar og verða að minnsta kosti 50% vínsins að vera úr Grenache og að minnsta kosti 25% úr Cinsault. Vacqueyras-vín eru ekki jafnlanglíf og vín frá Gigondas og Châteauneuf-de-Pape en þola yfirleitt vel geymslu í fimm til sjö ár.

Loks má svo nefna þorpið Tavel, sem getur státað af áþekkum jarðvegi og Châteauneuf-de-Pape, en er hins vegar þekktast fyrir að framleiða öflugustu rósavín Rhône-dalsins. Rósavín frá Rhône eru yfirleitt fersk, létt og þægileg sumarvín. Tavel-vínin eru hins vegar þung, litsterk og mikil, vín sem að mörgu leyti eiga meira sameiginlegt með rauðvínum en öðrum rósavínum.

Deila.