Rhône – Hermitage

Fyrir ofan bæinn Tain l’Hermitage á austurbakka Rónar, blasir þekktasta ekra Rhône-dalsins við á tígulegri hæð er gnæfir yfir bæinn. Hæðin ber heitið Hermitage og dregur nafn sitt af krossfara, Gaspard de Sterimbourg, sem eftir glæsta sigra á heiðingjum í austurvegi dró sig í hlé og gerðist einsetumaður (á frönsku Ermite) þarna á hæðinni. Einungis þær ekrur er snúa gegnt suðri fá að kenna sig við Hermitage og er alls um 120 hektara að ræða er gefa af sér stórfengleg vín, jafnt rauð sem hvít. Rauðu vínin eru úr Syrah en þau hvítu yfirleitt blanda af þrúgunum Marsanne og Rousanne. Hermitage-vínin eru tvímælalaust þau stærstu í Rhône og nokkru þyngri en hin fáguðu Côte Rôtie, einkennast af kryddi, steinefnum, hnetum og ferskjum og eldast þau mjög vel. Þau bestu þurfa áratug eða tvo til að sýna sig til fulls. Bestu blettirnir innan Hermitage heita les Bessards, le Méal og les Greffíeu og tíu aðrir flokkast sem deuxième og er algengasta svæðið í þeim flokki Chante-Alouette, en það gefur raunar af sér betri hvítvín en rauðvín.

Það er stórfenglegt að horfa upp í hæðina frá Tain en jafnast þó ekki á við þá sjón er blasir við leggi menn á sig ferð upp á sjálfa Hermitage-hæðina. Auk útsýnisins kemur þá jafnframt í ljós skýringin á því hvers vegna vínin á hæðinni bera af vínunum á sléttunum fyrir neðan. Grýttur jarðvegurinn myndar hitapott og á heitum sumardegi er steikjandi hiti uppi á Hermitage þótt mun svalara sé niðri í Tain.

Sá hluti hæðarinnar, sem ekki nær því að flokkast sem Hermitage sem og slétturnar í kring á austurbakkanum falla undir skilgreininguna Crozes-Hermitage. Þægileg milliþung vín, sem hægt er að drekka fyrr en Hermitage-vínin en ná heldur aldrei sömu hæðum og þau.

 

 

Deila.