Chianti Barone Ricasole 2007

Meðalhiti ársins 2007 var með því hæsta sem gerist í Toskana. Þetta var ekki yfirþyrmandi hitabylgjuár eins og 2003 heldur ár þar sem hitinn yfir árið var að jafnaði töluvert hærri en í meðalári. Þetta endurspeglast í þessu víni frá Ricasoli-fjölskyldunni í bænum Gaiole in Chianti. Þetta er einfaldur Chianti og litli-bróðir Chianti Classico-vínsins Brolio sem lengi hefur verið fáanlegt hér á landi.

Chianti Barone Ricasoli 2007 hefur þroskaðan dökkan ávöxt í nefi, vanillusykur, kirsuberja- og plómukrem og súkkulaði. Ávöxturinn hefur virkilega góða dýpt og mikinn þroska, vínið er mun stærra en hin einfalda Chianti-skilgreining gefur til kynna. Tannín mjúk og áferðin þægileg.

Mjög gott matarvín með t.d. góðum pastasósum. Ég nefni sem dæmi Spaghetti Carbonara eða kálfasneið með Spaghetti Milanese.

1.999 krónur

 

Deila.