Kientz Gewurztraminer 2008

Nafnið á þrúgunni Gewurztraminer vísar til þess að þetta er með arómatískari þrúgum og angan hennar yfirleitt krydduð. Hún er eiginlega hvorki hvít né rauð heldur bleik á lit. Vínin eru þó alltaf hvít þar sem liturinn kemur úr hýðinu en ekki berjasafanum, sem notaður er í víngerðina.

Kientz Gewurztraminer 2008 kemur frá Alsace í norðausturhluta Frakklands en þar er Gewurztraminer svo sannarlega á heimaslóðum.

Vínið hefur milda og ljúfa angan af blómum og rósavatni, þurrt, áferðin er þykk en góð sýra léttir vínið upp og gefur því líf. Elegant og þokkafullt vín.

Þetta er vín sem, líkt og flest góð Alsace-vín, smellur að margvíslegum mat. Reynið t.d. með réttum þar sem asísk áhrif eru ríkjandi eða risarækjum með kóríanderpestó.

2.799 krónur. Góð kaup.

 

Deila.