María í Montecillo

Víngerðarkonan Maria Martinez-Sierra hefur fyrir löngu skipað sér í röð þeirra fremstu á Spáni. Það var fyrir um þremur áratugum sem Osborne-fjölskyldan, sem á stærsta vínfyrirtæki Spánar, fól henni að sjá um uppbyggingu á  Montecillo, vínhúsi fjölskyldunnar í Rioja og var hún lengi vel nær eina konan sem hélt utan um víngerðina hjá stóru spænsku vínfyrirtæki.

María vildi hafa frjálsar hendur. Hún vildi ekki vera bundin af því að þurfa að styðjast við þrúgur af tilteknum ekrum heldur fá að kaupa þær þrúgur af bændum sem hún hafði áhuga á hverju sinni. Osborne-fjölskyldan féllst á skilyrði hennar og hún hefur fengið frjálsar hendur við að móta vínin samkvæmt sinni hugsjón alla tíð. Enda þarf maður ekki að vera lengi í návist Maríu til að skynja að þessi heillandi kona veit nákvæmlega hvað hún vill.

Sú mikla velgengni sem Montecillo-vínin hafa notið, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, benda lík til að hún hafi eitthvað til síns máls.

Hún gefur lítið fyrir mörg af nýrri Rioja-vínunum þar sem áherslan er á kraft og þunga í anda Nýja-heimsins. Hennar staðfasta trú er að Rioja verði að halda sig við sinn eigin stíl og hefðir. „Það sem menn kallla stundum „nútímaleg“ Rioja-vín hefur ekkert með nútímann að gera,“ segir hún. „Þetta er bara „business“. Þetta eru framleiðendur sem vilja fá peningana sem þeir hafa fjárfest í víngerð aftur í kassann strax og hafa ekki þolinmæði til að láta vínin bíða. Neytendur sjá í gegnum þetta og eru flestir að hverfa aftur til hinna hefðbundnu Rioja-vína. Það eru mörg af þessum nýju fyrirtækjum í miklum vandræðum í dag.“

Það hefur nefnilega löngum verið helsta einkenni Rioja-vínanna að þau koma fyrst í sölu þegar þau eru tilbúin til neylu. Þannnig er ekki óalgengt að Reserva og ekki síst Gran Reserva-vín séu hátt í áratugar gömul og sem dæmi má nefna að Gran Reserva-vínið frá Montecillo, sem nú er í sölu er árgerð 2003.

Hún leggur líka ríka áherslu á mikilvægi þess að vínin verði ekki of áfeng og leggur sig fram um að vínin séu sem næst 12,5% í styrkleika þótt mörg af tískuvínunum séu oft í kringum 14%.

Það er þó ekki þar með sagt að Maria fylgi öllum hefðum. Hún hefur til að mynda ávallt notað alfarið franska eik í stað þeirrar amerísku, sem er svo algeng í Rioja. Franska eikin gerir vínin fastari fyrir, þau þurfa ef eitthvað er aðeins meiri tíma en verða á móti virkilega matvænÞá hafa Montecillo-vínin gengið í gegnum mjög róttæka útlitsbreytingu. Í stað þungu, íhaldssömu miðanna eru litirnir á flöskumiðunum orðnir skærari og bjartari.

Það hefur verið í mörgu að snúast hjá Maríu upp á síðkastið en fyrir skömmu tók Montecillo í gagnið nýtt víngerðarhús, sem er með þeim tæknilega fullkomnustu á Spáni. „Það er ekki þar með sagt að við munum nýta okkur alla tæknina. Stundum er best að gera sem minnst. Ef á þarf að halda getum við hins vegar gert allt sem tæknilega er mögulegt í heiminum dag.“

Deila.