Það er spennandi að fylgjast með þróun víngerðar á Spáni, hún hefur verið á fleygiferð og Spánverjar eru ágætis mælitæki á þá strauma og stefnur sem eru að hrærast í vínheiminum. Það gafst ágætis tækifæri til að taka púlsinn á spænska víniðnaðinum í tengslum við sýninguna Fenavin sem haldin er á tveggja ára fresti í borginni Ciudad Real suður af Madrid. Sýningin hefur aldrei verið umfangsmeiri en í ár, jafnt hvað varðar framleiðendur sem að taka þátt og gesti jafnt Spánverja sem alþjóðlega sem sækja sýninguna.
Það má greina nokkra strauma. Í fysta lagi má segja að „hefðbundnu“ spænsku vínstílarnir séu að brotna upp. Dæmigerðu rauðvínin þar sem þrúgan er Tempranillo og áralöng geymsla á eik setur sterkan svip á vínið eru auðvitað ennþá til en samhliða þeim er orðin til fjölbreytt flóra vína. Rioja er líklega skýrasta dæmið. Þegar vín þaðan eru smökkuð vekur athygli hversu ólík og fjölbreytt þau eru. Það er mjög erfitt að benda lengur á eitt tiltekið vín og segja að það sé dæmigert fyrir víngerð svæðisins. Um árabil hefur verið talað um nýbylgjuvínin þar sem meiri áhersla er lögð á að ná sem mestu út úr ávexti þrúgunnar og nýjar tunnur úr franskri eik teknar fram yfir notaðar tunnur úr amerískri eik. Tíminn sem vínið liggur á eikinni hefur sömuleiðis verið að styttast.
Á síðustu árum hefur áherslan á draga fram einkenni ólíkra svæða og ekra verið í forgrunni, áhersla á það sem Frakkar myndu kalla terroir. Það hvernig vínin eru flokkuð samkvæmt hinu hefðbundna kerfi (Crianza, Reserva eða Gran Reserva) er oft farið að skipta minna máli en hvaðan vínið koma og hvernig víngerðin er.
Annað sem einkennir Spán er að þeim svæðum þaðan sem spennandi og oft á tíðum frábær vín koma er alltaf að fjölga. Þau víngerðarhéruð sem fyrir nokkrum árum töldust tiltölulega ný á borð Ribera del Duero, Priorat og Pénedes eru að verða nokkuð ráðsett en jafnframt eru önnur svæði sífellt að færa sig upp á skaftið. Bierzo, Empordá, Alicante, Aragón, Ribeira, Utiel-Requena, Sierras de Malaga, Montsant, Arribes og Calatayud.
Oftast eru þetta lítil vínhús sem oftar en ekki leggja mikið upp úr terroir og að vínræktin sé líkrækt og/eða lífefld. Það fjölgar líka stöðugt þrúgunum sem að skjóta upp kollinum – sú tíð er löngu liðin að nær öll spænsk rauðvín væru úr Tempranillo. Á síðustu árum hafa þrúgur á borð við Bobal, Monastrell, Garnacha og Mencía verið sífellt vinælari en nú eru líka farin að sjást þrúgur með nöfnum á borð við Brancellao, Caino, Carabuneira, Ferrol, Souson, Tintilla og Juan Garcia. Stundum er um að ræða þrúgur sem eiga sér langa sögu en voru nær gleymdar og jafnvel að hverfa úr rækt sem verið er að endurvekja og gera tilraunir með – oft með frábærum árangri.
Það fer minna fyrir alþjóðlegum (les frönskum) þrúgutegundum þótt vissulega megi rekast á Cabernet Sauvignon og Chardonnay hér og þar. Stundum koma hins vegar verulega spennandi vín úr slíkum þrúgum – og þá ekki síst syrah. Sú þrúga nýtur sín einstaklega vel víða í spænskum aðstæðum, enhver mest spennandi vínin sem smökkuð voru þessa daga voru rauðvín úr Syrah frá Rodriguez de Vera í Albacete og Garnacha-vín frá Bodega San Gregorio í Calatayud.
En víngerð á Spáni snýst ekki lengur fyrst og fremst um rauðvín. Hvítvínin verða stöðugt betri og meira spennandi. Albarino-vínin frá svæðunum Rias Baixas og Valdeorras í Galisíu hafa fyrir löngu sannað sig og Verdejo og Viura-vínin frá Rueda hafa sömuleiðis komið sér vel fyrir á kortinu. Rétt eins og í rauðvínunum fjölgar líka stöðugt þrúgunum sem að sjást en það er líka áhugavert að sjá hvernig rauðvínsrisinn Rioja er allt í einu að verða mjög áhugavert hvítvinssvæði. Hér heima höfum við auðvitað séð frábært hvítvín frá Rioja-vínhúsum á borð við Muga og El Coto og nú síðast Marques de Murrieta. En þeim fjölgar stöðugt Rioja-hvítvínunum og þau verða æ fjölbreyttari eftir að slakað var á reglum fyrir nokkrum um hvaða þrúgur megi nota.
Fyrir áhugafólk um hvítvín er líka sérstök ástæða til að hafa augun opin fyrir þrúgunni Godello.
Annar straumur sem verður meira og meira áberandi er að stöðugt virðist vera aukinn þungi í framleiðslu á hágæða-freyðivínum. Þekktustu freyðivínin hafa komið frá Katalóníu og verið gerð undir merkjum Cava en nokkur af bestu húsunum hafa hins vegar verið að rjúfa sig frá vegna deilna um regluvekrið. Hið frábæra hús Raventos i Blanc varð fyrst til fyrir nokkrum árum og nýlega klauf sig hópur frægra húsa til viðbótar frá og ætlar að framleiða undir eigin skilgreiningu (Corpinnat) í stað þess að nota hina nýju hágæða skilgreiningu Cava-svæðisins – Parajes Calificados. Þessar deilur breyta þó ekki því að líklega hefur framboðið af spænskum freyðivínum aldrei verið betra.
Annað sem vert er að minnast á og vakti athygli er að aldrei hafa Vermút-vín verið jafn áberandi á sýningunni og nú. Oft eru það klassísku sérríhúsin sem að koma með slík vín, að einhverju leyti til að bregðast við minnkandi vinsældum hinnar hefðbundnu sérrí-framleiðslu, en sömuleiðis er þetta til marks um vaxandi vinsældir vermúts víða um Evrópu. Oft eru spænsku vermút-vínin byggð á sérrígrunni og framleidd í solera-tunnukerfum sérríhúsana þar sem margvíslegum kryddjurtum er bætt við áður en vínið fer á tunnur.