Bestu vín ársins 2010

Það má kannski segja að árið 2010 hafi verið það ár sem kreppan fór virkilega að segja til sín í vínframboði á Íslandi. Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst nokkuð frá árinu 2009 þá hafa álögur á áfengi aukist verulega. Á sama tíma hefur dregið verulega úr vínbirgðum af betri vínum sem fluttar voru til landsins fyrir hrun og því enn á “gamla” genginu. Flest slík vín hverfa af markaðnum þegar birgðir eru á þrotum enda hefði verð þeirra stökkbreyst ef þau hefðu verið keypt inn á hærra gengi.

Neytendur þurfa á sama tíma að glíma við almenna rýrnun kaupmáttar og vilja því helst borga minna fyrir hverja vínflösku á sama tíma og verð fer hækkandi. Ekki góð blanda. Þetta hefur endurspeglast í nýliðun tegunda á markaðnum. Hér áður fyrr voru vín algeng sem kostuðu um 2 evrur og þar fyrir ofan frá framleiðanda en nú hefur skollið á flóðbylgja vína sem eflaust kosta nokkuð undir evrunni frá bónda. Menn geta síðan dregið sínar ályktanir af því.

Þar með er þó ekki sagt að allt sé svart. Þegar maður lítur yfir þau hundruð vína sem smökkuð voru á síðasta ári er ýmislegt sem stendur upp úr. Það halda sem betur fer áfram að koma inn virkilega góð ný vín auk þess sem mörg vín sem lengi hafa verið á markaðnum standa ávallt fyrir sínu, vín frá framleiðendum á borð við Montes, Torres og Baron de Ley svo dæmi séu nefnd.

Það er alltaf erfitt að velja eitthvert eitt þegar margir góðir kostir eru í boði. Það eru þó nokkur vín sem kæmu vel til greina sem vín ársins.

Það mætti nefna tvö frábær Búrgundarvín á fínu verði: Pascal Lachaux Chardonnay og Domaine Arnoux-Lachaux Pinot Fin. Eða nýsjálensku vínin frá vínhúsinu Spy Valley, ekki síst hið rauða Merlot og hið hvíta Sauvignon Blanc. Það mætti líka horfa til Austurríkis og hvítvínsins Fischer Gruner Veltliner, sem eru einhver bestu kaupin í hvítum vínum þegar horft er til samspils verðs og gæða. Það á einnig við um hið spænska Mo Monastrell sem líkt og Fischer-vínið lækkaði um tugi prósenta í verði á árinu þar sem erlendi framleiðandinn kom til móts við íslenska markaðinn.

Svo má nefna rauðvín á Vidal-Fleury Cotes-du-Rhone 2007 þar sem stórkostlegur árgangur gerir að verkum að vín í ódýrari kantinum fer að spila í efri deildinni. Suður-afrísku hvítvínin Two Oceans Sauvignon Blanc og Drostdy Hof Chardonnay og hið spænska Mayor de Castillo sönnuðu svo að mjög ódýr vín geta vel verið meira en ásættanleg.

Önnur vissulega dýrari voru síðan það góð að þau verður að nefna. Ítölsku Valpolicella-vínin frá Ca’Rugate og spænsku Empordá-rauðvínin frá vínhúsinu Perelada eða þá hið magnaða Gigondas frá Saint-Cosme.

Vínið sem stendur endanlega uppi sem sigurvegari ársins er hvorki hvítt né rautt. Það er freyðandi og kemur frá Ítalíu, nánar tiltekið Trentino í norðurhluta landsins. Ferrari Maximum Brut er í verðflokkinum mitt á milli freyðivína og kampavína. Guilio Ferrari stofnaði víngerðarina árið 1902 og frá upphafi hafa öll vínin verið framleidd með hinni hefðbundnu kampavínsaðferð, sem byggist á því að kolsýrugerjunin á sér stað í hverri flösku fyrir sig. Þvílíkur fengur að fá þetta vín á íslenska markaðinn.

 

Deila.