Hreindýr með sídersósu og röstikartöflum

Það þarf ekki að hafa mikið fyrir hreindýrakjöti til að það njóti sín. Hér dregur síder- og koníakssósa fram það besta í kjötinu ásamt rösti-kartöflum með beikoni og púrru.

 • 4 hreindýrasteikur, hver um 150 grömm
 • 4 bökunarkartöflur
 • 1 stór púrrulaukur eða 2 litlir. Notið bara hvíta hlutann. Skerið í tvennt langsum og síðan þversum. Saxið niður í litlar ræmur.
 • 100 grömm beikon, saxað fínt
 • 3 dl síder eða hreinn eplasafi
 • 2 dl hreindýrasoð eða annað gott, bragðmikið kjötsoð
 • 1 dl koníak eða bourbon

Aðferð:

 1. Gott er að marínera kjötið í kryddlegi fyrir hreindýr.
 2. Sjóðið kartöflur, kælið, skrælið og rífið niður á grófu rifjárni.
 3. Blandið saxaða púrrulauknum og beikoninu saman við kartöflurnar ásamt salti og pipar.
 4. Mótið fjórar um 1-2 sm þykkar pönnukökur og steikið í smjöri á pönnu þar til þær hafa tekið á sig góðan lit báðum megin.
 5. Setjið rösti-pönnukökurnar inn í 120 gráða heitan ofn.
 6. Sjóðið síderinn niður um 2/3.
 7. Bætið kjötsoðinu saman við og sjóðið aftur niður um 2/3.
 8. Bætið koníaki/bourbon saman við. Bragðið á sósunni og kannið hvort hún hefur náð þeim bragðstyrk sem þið viljið.   Geymið.
 9. Steikið hreindýrasteikurnar í smjöri á pönnu. Hreindýrakjöt má ekki steikja of lengi. Miðið við 3-4 mínútur á hvorri hlið.
 10. Bætið sósunni út á pönnunna og hitið upp ásamt kjötinu.
 11. Takið röstipönnukökurnar út úr ofninum og setjið á diska.
 12. Setjið hreindýrasteik ofan á hverja pönnuköku og hellið sósunni yfir. Berið strax fram.

Með þessu má hafa ýmislegt annað meðlætið, s.s. Waldorf-salat eða stappaða sellerírót.

Gott Bordeaux-vín er fullkomið með þessu, t.d. Brio de Cantenac.

 

 

Deila.