Grillaður smokkfiskur með chili

Það er auðvelt að elda smokkfisk og hann hentar vel á grillið. Þessi útgáfa sem er í anda River Cafe var vinsæl á veitingahúsum fyrir nokkrum árum og er enn einhver sú besta sem hægt er að finna.

Látið ekki magnið af chili fæla ykkur frá. Með því að fræhreinsa belgina vel og láta þá liggja í olíunni mildast þeir og eru alls ekki eins „heitir“ og mætti halda heldur verða mildir og sætir.

Skerið tíu rauða chilibelgi þversum og hreinsið vel innan úr þeim og skolið undir köldu vatni. Passið bara að fara ekki með puttana í augun strax á eftir. Saxið chili smátt, það má líka gera varlega í matvinnsluvél. Setjið í skál og hellið góðri ólívuolíu yfir þannig að hún þekji alveg og rúmum sentimetra betur. Saltið með maldonsalti og kryddið hressilega með nýmuldum pipar. Látið liggja í olíunni í að minnsta kosti klukkustund.

Hreinsið vel innan úr smokkfisknum og skolið hann. Skerið raufar í hann allan öðrum megin, fyrst þversum og síðan langsum. Penslið með olíu, piprið og grillið á sjóðheitu grilli í 1-2 mínútur á hvorri hlið.

Skerið í sneiðar og berið fram með chili og olíunni, klettasalati eða blaðsalati.

Hér á gott ítalsk hvítvín við, t.d. Pieropan Soave.

Deila.