Giouvetsi kjúklingur

Giouvetsi kjúklingur eða Kotopoula Giouvetsi er grískur að uppruna og til í mörgum útgáfum. Grunnurinn er þó alltaf sá sami. Kjúklingur eldaður í ofni ásamt tómötum.

Yfirleitt er notað Orzo-pasta, sem er smágert, minnir á stór hrísgrjón. Það fæst ekki hér en nota má t.d. Casarecci, Ditali eða Penne.

  • 1 kjúklingur, skorinn í bita
  • 500 g pasta
  • 2 laukar, saxaðir
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 grænn chilibelgur, fræhreinsaður og fínsaxaður
  • 300 g tómatapúrra
  • 1,5-2 lítrar kjúklingasoð
  • 1 lúka steinselja, fínsöxuð
  • ólívuolía
  • salt og pipar

Hitið olíu á stórri pönnu. Brúnið kjúklingabitana í nokkrar mínútur. Lækkið hitann, bætið við lauk, hvítlauk og chili og mýkið á pönnunni í um 5 mínútur.

Bætið þá pastanu út á pönnuna og veltið upp úr soðinu. Bætið tómatapúrruna síðan út á og blandið vel saman við. Hellið þá soði út á pönnuna eins og hún tekur við og leysið vel upp allar skófar.

Setjið allt í ofnfast fat og bætið við soði eins og þarf til að það þekji pastað og kjúklinginn. Setjið í 180 gráðu heitan ofn og eldið í um 45 mínútur eða þar til að vökvinn er að mestu gufaður upp. Hrærið í fatinu 1-2 sinnum og bætið við meira soði ef þarf til að pastað eldist að fullu og til að koma í veg fyrir að rétturinn verði of þurr.

Stráið steinseljunni yfir og berið fram. Ekki er verra að hafa nýrifinn parmesan-ost með.

Með þessum rétti er gott að hafa suður-evrópskt hvítvín t.d. Baron de Ley Blanco úr Viura-þrúgunni.

Deila.