Blálanga á sætkartöflusátu

Sætar kartöflur fara einkar vel með sjávarfangi og hér er einfaldur tiltölulega fyrirhafnarlítill forréttur fyrir fjóra sem auðvelt er að breyta í aðalrétt með því að tvöfalda eða þrefalda uppskriftina.

Blálangan er ein af mörgum fisktegundum sem hæfa þessum rétti og farsælast sem endranær að velja það sem fisksalinn er með nýjast af hnakkastykkjum í borðinu hjá sér, t.d. af þorski, hlýra, keilu eða þorski, svo dæmi séu tekin.

Kosturinn við kartöflurnar er að það má auðveldlega búa til sætkartöflusátuna fyrirfram, kvöldið áður en fyrr um daginn.

 • 2 stórar sætar kartöflur
 • 2 msk ólífuolía
 • 2 msk hunang
 • ½ tsk svartur pipar
 • ½ tsk sjávarsalt
 • 1 msk ferskur engifer
 • 1 tsk kóríander

Byrjið á því að baka kartöflurnar í 170 gráðu heitum ofni. Þær ættu að vera orðnar mjúkar í gegn eftir tæpan klukkutíma. Meðan kartöflurnar bakast er engiferinn saxaður smátt og settur í skál ásamt hunangi, kóríander, salti og pipar – og allt blandað vel saman. Þegar kartöflurnar eru bakaðar eru þær skornar í tvennt, skafið inn úr hýðinu, stappað vel og maukið sett í eldfast mót. Hungansleginum er síðan hellt yfir kartöfurnar og blandað vel. Skömmu áður en forrétturinn er borinn fram er eldfasta mótið sett í heitan ofn í fáeinar mínútur.

 • 400 gr. hnakkstykki af blálöngu
 • 2 msk ólífuolía
 • 2 msk dukkah með salthnetum og karríi (frá Yndisauka)
 • sjávarsalt
 • 3 msk kókosflögur

Blálangan er þerruð og þverskorin í litla bita – um það bil 50 gramma bita – og sett í skál með helmingnum af ólíuolíunni og dukkah kryddinu. Bitunum er velt upp úr þessu og leyft að marinerast í stundarfjórðung eða svo. Á meðan eru kókósflögurnar ristaðar á þurri pönnu. Gætið þess að þær taki aðeins lit en verði ekki brenndar – þær eru síðan muldar niður með mortéli eða bara í höndunum. Settar til hliðar.

Fiskurinn er steiktur á snarpheitri pönnu í olíu í 5 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn, snúið einu sinni, og ögn af sjávarsalti sáldrað yfir. Muldu kókósflögunum er að lokum dreift yfir bitana.

Fiskurinn er settur ofan á sætkartöflusátuna á forréttardisk og borinn fram með klettasalati og fáeinum kirsuberjatómötum sem hafa verið skornir í bita.

Deila.