Það eru fjórar tegundir af lauk notaðar í þessa pastauppskrift sem annars byggir á kjötsósu sem líkir eftir sósum þar sem klassískar ítalskar pylsur eru notaðar.
- 500 g pasta (t.d. penne eða tagliatelle)
- 600 g svínakjöt
- 5 dl tómatasósa (passata)
- 2,5 dl rjómi/matreiðslurjómi
- 1 dl hvítvín
- 1 rauðlaukur, fínt saxaður
- 4-5 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- 2 msk saxaður skalottulaukur
- 1 búnt vorlaukur, saxað
- 1 lúka fersk, söxuð salvía eða 2 msk þurrkuð
- 1 msk mulinn fennel
- 1/2 tsk chili
- salt og pipar
Saxið laukana. Hitið olíu í þykkum potti eða á pönnu og mýkið laukinn í um 5 mínútur á miðlungshita. Bætið kjötinu út á og hækkið hitann. Kryddið með fennel, chili og salvíu. Eldið í um 5 mínútur. Bragðið til með salti og pipar. Þá er hvítvíninu hellt út á og látið sjóða niður að mestu. Bætið tómatasósunni út á, lækkið hitann og látið malla á vægum hita í a.m.k. 15-20 mínútur, gjarnan lengur. Bætið þá rjómanum út í og látið malla áfram í um 10 mínútur.
Blandið pasta (t.d. penne eða tagliatelle) saman við og berið fram með fullt af nýrifnum parmesan-osti. Gott ítalskt rauðvín smellur að þessu t.d. Il Poggione Rosso di Montalcino.
Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.