Barciulli á Kolabrautinni

Klaustrið Badia a Passignano er með fegurstu stöðum Chianti Classico-héraðsins í Toskana. Klaustrið (Badia) var upphaflega byggt á fjórðu öld við hlið Passignano-hallar. Byggingarnar sem nú mynda klaustrið eru hins vegar flestar frá sautjándu öld þó að turninn sem stendur upp sé mun eldri og hluti af hinum forna Passignano-kastala.

Vínekrur Badia eru rómaðar og þar framleiðir vínjöfurinn Piero Antinori eitt besta vín svæðisins Haustið 2000 var opnaður  veitingastaður í Badia sem hlaut nafnið Osteria di Passignano. Þar ræður ríkjum Matia Barciulli sem hefur gert staðinn, sem nú er alfarið í eigu Antinori, að einum virtasta veitingastað Toskana, og þá er mikið sagt.

Barciulli er þessa dagana gestakokkur á Kolabrautinni og mun fram á sunnudag bjóða gestum þar upp á matseðil í anda Osteria di Passignano auk þess sem boðið er upp á vínseðil með nokkrum af bestu vínum Antinori, s.s. Tignanello og Solaia.

Matargerð Barciulli er nútímaleg útfærsla af toskanska eldhúsinu, fáguð, lágstemmd og alveg hreint hrikalega góð.

Fyrsti rétturinn er tilbrigði við crostini, þrjár útgáfur, mozzarella, sveppir og lifur.

Þá koma pastakoddar, tortelli, með andarfyllingu, bornir fram með sætum rauðlauk elduðum í rauðvíni og mildu seljurótarmauki. Afskaplega fágaður réttur.

Senunni stal hins vegar aðalrétturinn, beikonvafin nautalund. Kjötið var svo fínlegt, meyrt og bragðmikið, með þessu ætiþistlar og kjúklingabaunir. Oftar en ekki er það svo að flugeldasýningarnar í eldamennskunni eru í fyrri réttunum, hér var það hins vegar lundin sem stóð upp úr, með einfaldri en fulkominni samsetningu bragða áður en komið var að eftirréttinum þar sem þemað er súkkulaði og jarðarber.

Deila.