Indversk krydd og maukaðar cashewhnetur mynda hér þykka sósu sem gerir þennan indverska kjúklingarétt ómótstæðilega góðan.
Cashewhnetumauk
- 200 g cashewhnetur (ósaltaðar)
- 2 rauðir chilibelgir
- 8-10 hvítlauksgeirar
- 2 tsk cummin
- 2 tsk garam masala
- 2 tsk salt
- 1 dl vatn
- 2 msk matarolía
Maukið öllu saman í matvinnsluvél.
Kryddblanda
- 2 tsk cummin
- 2 tsk kóríander
- 1 tsk túrmerik
- 1 tsk chili
Blandið saman og geymið.
Annað sem þarf í réttinn:
- 500-600 g kjúklingalæri, úrbeinuð og skinnlaus
- 200 g skalottulaukur, saxaður gróft
- 2 tsk kardimomma
- 2 stk stjörnuanís
- 3 lárvíðarlauf
- 7 dl vatn.
Blandið kjúklingalærunum og cashewhnetumaukinu saman í skál eða fati. Setjið álpappír yfir og geymið í ísskáp í að a.m.k. klukkutíma.
Hitið olíu á pönnu og mýkið skalottulaukinn á miðlungshita í allt að tíu mínútur. Bætið þá kryddblöndunni saman við of veltið um með sleif í ca 2 mínútur. Þer kardimommu, stjörnuanís og lárviðarlaufum bætt út á pönnuna. Hrærið vel saman við. Setjið næst kjúklingabitana og hnetumaukið á pönnuna og steikið í um tíu mínútur.
Hellið loks vatninu á pönnuna og látið malla saman í um 30 mínútur eða þar til að kjúklingurinn er fulleldaður og sósan er orðin mjög þykk. Takið lárviðarlaufin og stjörnuanísi upp úr og hendið.
Með þessu er gott að hafa Raita, hrísgrjón og naan-brauð. Ástralskt hvítvín á borð við Peter Lehmann Riesling smellpassar með.