Hvað er barley wine?

„Barley Wine“ var fyrirferðarmikið þessi jól. Giljagaur, sem flestir vilja meina að hafi verið besti jólabjórinn í ár, skartar þessum titli á miðanum sínum. Flestir hafa því eflaust spurt sjálfan sig hvað í ósköpunum er Barley Wine og hví stendur „Wine“ utan á bjórflösku. Og afhverju er þessi bjór svona gríðarlega hár í áfengisprósentum.

Áður en við skoðum sögu þessa magnaða bjórstíls er best að líta á hver staðan á honum er í dag. Þessi bjórstíll hefur verið afar vinsæll í Bandaríkjunum og þá sér í lagi á vesturströndinni. Upphaf vinsælda hans má rekja til ársins 1975 þegar Anchor í San Francisco byrjaði að framleiða „Old Foghorn“. Old Foghorn var fyrsti bjórinn í þessum stíl bruggaður í Bandaríkjunum og rétt eftir „craft beer“ sprenginguna í Californiu fetaði Sierra Nevada í fótspor Anchor með sína útgáfu af Barley Wine, „Sierra Nevada Bigfoot Barleywine“. Í dag brugga mörg lítil brugghús í Bandaríkjunum barley wine og oft mikill metnaður á bak við þessa bjóra.

Þessi stíll er samt ekki bandarískur þrátt fyrir uppgang hans vestan hafs. Talið er að Fritz Meytag, eigandi Anchor, hafi verið staddur í Bretlandi snemma á áttunda áratug síðustu aldar þegar hann kynntist barleywine. Hann var staddur á krá í Bretlandi þar sem hann sá gamla konu sötra á þessu rauða öli og spurði hvað þetta væri. Svar barþjónsins var að þetta væri „old ale“ eða „barley wine“. Þessi bjórstíll var rótgróin í Bretlandi og helsti boðberi stílsins þar, Bass No 1, hafði verið bruggaður síðan 1903. Bretar voru hrifnir af áfengismiklu öli og var því oftast áfengismesta öl breskra brugghúsa merkt „No 1“, eða „old“, en „old ale“ var öl sem búið var að geyma lengi í flöskum. Af nafninu „Old Ale“ tvinnaðist síðan nafið Barley Wine en á tímabili átti þessi bjór að keppa við frönsk vín í matarpörun á breskum heimilum. Ótrúlegt en satt..

Barley Wine er mjög innihaldsmikið öl, en í það fer mikið magn af byggi, malti sykri og humlum. Helsti munurinn á breskum og bandarískum barley wine í dag er að breska útgáfan er maltaðri á meðan að ungi frændinn frá Bandaríkjunum er humlaðri. Ég myndi telja að Giljagaur væri frekar í ætt við bandaríska frændur sína en þá bresku, en mjög áhugavert er að bruggarar Borg eru tveir, annar þeirra lærði á vesturströnd Bandaríkjanna á meðan hinn lærði fag sitt á Bretlandseyjum. Það gerir Giljagaur enn áhugaverðari og því slal engan undra að hér er ákaflega vandað og flókið öl á ferð.

Það sem margir hafa einnig rekið augun í er að á Giljagaur stendur að hann sé góður allt til ársins 2020 og margir hafa verið hvattir til að geyma hann. Að geyma bjór í mörg ár kemur ef til vill mörgum íslendingum á óvart, en hér er samt ekkert nýtt á ferðinni. Stórir yfirgerjaðir bjórar (þ.e. öl) þola geymslu mjög vel á meðan undirgerjaðir bjórar (lager) þola hana ekki. Stór öl sem eru innihaldsmikil og há í áfengisprósentu geta batnað með tímanum, og eins og mörg vín, náð hámarki sínu langt frá framleiðsludegi. Barley Wine hefur þann kost að geta geymst í tugi ára, og geyma sumir barley wine í kjallara sínum sem hafa náð meira en 20 eða 30 ára aldri. Þegar ölið er ungt að þá eru humlarnir fyrirferðamestir en þegar líða tekur á aldurinn verður ölið sætara og mun flóknara. Það er samt einungis smekksatriði bjórnörda hvenær þeim finnst barley wine vera best. Mér finnst ungt barley wine vera gríðarlega gott, þar sem humlakarakterinn skín í gegn.

old foghorn

Giljagaur er löngu uppseldur hér á landi ég hvet sem fólk til að smakka Anchor Old Foghorn, sem er Bandarískt barley wine og það eina sem er selt hér á landi. Eins og með Giljagaur, að þá er þar á ferðinni afar vandað og gott öl.

Deila.