Kartöflur „Sarladaises“

Sarlat er þorp í Dordogne í suðvesturhluta Frakklands sem þessi vinsæli kartöfluréttur „Pommes Sarladaises“ er kenndur við. Þetta er tilvalið meðlæti með margskonar réttum, t.d. önd eða lambafile eða þá nautasteik.

Uppskriftin er til í fjölmörgum útgáfum en í öllum tilvikum byggja þær á því að niðursneiddar kartöflur eru eldaðar í andafitu (eða gæsafitu) ásamt hvítlauk og steinselju.  Í sumum útgáfum er kóngasveppum eða trufflum (sem eru vinsælar í Dordogne) bætt við.

Andafitu má fá í ýmsum verslunum (Búrinu, Kjötkompaní svo dæmi séu nefnd) og það er líka sniðugt að geyma fituna og kæla sem rennur af þegar önd er elduð. Ef þið eigið ekki andafitu er hægt að nota ólífuolíu í staðinn.Hægt er að gera Pommes Sarladaises jafnt á pönnu sem í ofni og hér styðjumst við við ofninn.

  • Kartöflur, skornar í sneiðar, ca 800 g
  • Flatlaufa steinselja, 1 búnt, saxað
  • 2-3 stönglar timjan
  • 4-5 vænir hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • 3-4 msk andafita
  • salt og pipar

Setjið kartöflurnar í eldfast fat ásamt andafitunni. Saltið og piprið. Eldið við 200 gráður í um 25 mínútur. Takið þá fatið út og bætið hvítlauk, timjan og steinselju saman við. Eldið þar til kartöflurnar eru fulleldaðar.

Gott er að setja smávegis af ferskri steinselju saman við í lokin.

 

Deila.