Palestínskur kjúklingur – Mansaf

Uppskriftina að þessum kjúklingarétti fengum við beint frá Líbanon en uppskriftin er palestínsk. Þetta er eins konar útgáfa af rétti sem heitir mansaf og er vinsæll víða í Austurlöndum nær, oft eldaður líka með lambakjöti og jógúrt. Í þessari útgáfu er hins vegar kjúklingur.

 • 600 g úrbeinuð kjúklingalæri, skorin í bita
 • 2 tsk kardimomma
 • 6 lárviðarlauf
 • 1 laukur, skorinn í fernt
 • matarolía
 • salt og pipar

Skerið kjötið í grófa bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjötið í um fimm mínútur. Bætið þá lárviðarlaufunum, lauknum og kardimommunni saman við. Hellið um hálfum lítra af vatni út á pönnunna, blandið öllu vel saman og látið malla á vægum hita í um hálftíma þar til vökvinn hefur að mestu gufað upp. Saltið og piprið.

 • 3 dl hrísgrjón (t.d. Long Grain)
 • 500 g nautahakk
 • 2 tsk kanill
 • 1 tsk cummin
 • salt og pipar

Þá er komið að því að útbúa grjónin. Hitið olíu í þykkum potti og brúnið hakkið. Bætið næst hrísgrjónunum saman við og steikið með kjötinu í 3-5 mínútur. Kryddið með kanil, cummin, jafnvel smá chiliflögum. Saltið og piprið. Bætið nú um 7,5 dl af vatni saman við og sjóðið á miðlungshita í um hálftíma.

Setjið grjónin á fat og kjúklinginn yfir. Sáldrið fínsaxaðri steinselju og 1-2 lúkum af ristuðum furuhnetum yfir. Það er gott að grilla kjúklinginn aðeins á grilli eða í ofni áður en rétturinn er borinn fram.

Deila.