Yfirleitt borða ég hafragraut á morgnana en þegar mig langar til að breyta til þá finnst mér gott að fá mér heimalagað granóla annað hvort með AB mjólk eða ef þetta á að vera lúxus morgunverður þá strái ég granóla yfir gríska jógurt og hef fersk ber með. Ég fylgi ekki strangri uppskrift heldur nota það sem til er en grunnurinn er alltaf sá sami – haframjöl sem við er bætt hnetum, fræjum og þurrkuðum ávöxtum að vild. Fyrst þegar ég fór að búa þetta til setti ég bara kanil í blönduna en nú set ég líka smá þurrkað og malað engifer og það gerir mjög gott bragð. Ég vil hafa mitt granóla svolítið sætt en það er lítið mál að minnka sætuefnin að vild. Hægt er að styðjast við eftirfarandi uppskrift:
- 500 g haframjöl
- 200 g gróft saxaðar hnetur eða möndlur (best finnst mér að nota pecan hnetur, en valhnetur og eða möndlur eru líka góðar
- 200 g blönduð fræ (t.d. sólblómafræ, sesamfræ og graskersfræ)
- 2 tsk kanill
- 1 tsk engiferduft
- 1 tsk sjávarsalt
- 100 g púðursykur (hægt að minnka magnið allt eftir því hvað þú vilt hafa þetta sætt)
Öllu þessu er blandað vel saman í stórri skál.
Í lítinn pott setur þú svo:
- 180 g eplamauk
- 80 g hunang
- 80 g síróp (best finnst mér hlynsíróp)
- 2 msk olía (ekki ólífuolía)
Þetta er hitað í pottinum á vægum hita þangað til þetta hefur blandast vel.
Ath. ef þið viljið hafa ykkar granóla minna sætt þá endilega prófið ykkur áfram og minnkið ofangreint magn.
Þá er þessu öllu hrært vel saman þannig að þurrefnin blandist vel við eplamauksblönduna. Þetta þarf svo að baka í ofninum í ca 40 mín við 150°C. Ég skipti þessu yfirleitt á tvær bökunarplötur með bökunarpappír. Gott er að hæra í þessu ca tvisvar á meðan granólað er í ofninum svo það brúnist jafnt.
Þegar granólað hefur bakast þá er best að kæla það áður en þurrkaðir ávextir eru settir saman við. Ég mæli þá aldrei heldur bæti þeim bara við þar til mér finnst vera komið nóg. Gott er að setja rúsínur, þurrkuð trönuber, apríkósur og etv. döðlur – allt eftir því hvað þér finnst best.
Guðrún Jenný