Chacha – þjóðardrykkur Georgíu

Við höfum fjallað töluvert um Georgíu á þessu ári enda varð loksins úr því í sumar að heimsækja þetta stórkostlega víngerðarland þar sem vín hefur verið framleitt í þúsundir ára eða lengur en í nokkru Evrópuríki. Lesið nánar um það hér. Og rétt eins og í flestum rótgrónum víngerðarlöndum nýta Georgíubúar vínhratið til eimingar. Á Ítalíu kalla menn afurðina grappa, í Frakklandi er það marc og á spáni orujo. Í Georgíu búa menn hins vegar til Chacha sem er eins konar þjóðardrykkur þeirra í Georgíu. Chacha getur verið margs konar, oftast er það tært en einnig má finna Chacha þar sem eikin gefur því gulbrúnan lit. Þá má jafnvel finna Chacha þar sem ávextir eru látnir liggja í leginum til að bæta við bragði, ekki ósvipað og oft er gert með marc í Alsace í Frakklandi.

Georgíumenn eru gífurlega gestrisnir og lífið snýst að miklu leyti um að gera vel við sig og aðra í mat og drykk. Georgísku veisluborðin eru víðfræg og þegar gesti ber að garði er ávallt slegið upp veislu. Hér má lesa nánar um það. Borðhaldið fylgir ströngum hefðum og stjórnar sérstakur veislustjóri eða tamada borðhaldinu. Hans hlutverk er að sjá til þess að allir borði og drekki nóg en ekki mikið og að gestum leiðist ekki við borðið. Oftast er gestgjafinn í hlutverki tamada en ef um stóra veislu er að ræða er fenginn utanaðkomandi aðili, yfirleitt öldungur sem virðing er borin fyrir.

Tamadan heldur fjölmargar skálaræður yfir borðum þar sem skálað er fyrir gestgjafanum, fjölskyldu hans og öllum öðrum sem með einhverjum hætti tengjast matargestum. Þá sér tamadan til þess að þeir gestir sem hafa eitthvað að segja komist að og geti flutt skálaræðu. Georgíumenn dreypa ekki á víni með matnum. Að lokinni hverri skálaræðu tæma þeir hins vegar glasið. Það er ekki mælt með því að fylgja þeim sið yfir borðum, sérstaklega ef Chacha er komið í glösin eins og gerist oft er líður á máltíðina.

Nú er ein tegund af Chacha fáanleg í vínbúðunum, nánar tiltekið frá vínhúsinu Tbilvino, en grunnþrúgan að baki er hin rauða  Saperavi. Þetta er eikað Chacha, nokkuð mjúkt (eins og hægt er með Chacha) með mildri vanillu úr eikinni.

Deila.