Systrablogg – Arndís Ósk og Guðrún Jenný

Hér blogga tvær nokkuð ólíkar systur sem hafa mikinn áhuga á að elda og borða góðan mat.  Guðrún Jenný (Gunna) er lögfræðimenntaður sviðstjóri hjá Ríkisskattstjóra og Arndís Ósk er stjórnunarráðgjafi.  Þær hafa ferðast talsvert um heiminn, oftast í sitthvoru lagi, og leita víða fanga þegar kemur að matargerð.  Vitað er að Arndís drekkur áfengi, og hefur í gegnum tíðina, drukkið skammt Gunnu þannig að ef lesendur geta líklegast átt frekar von á bloggi Arndísar um áfengi en hjá púrítananum Gunnu.

Þær ólust upp eins og samrýmdar systur sem fóru í taugarnar á hvor annarri fram eftir aldri.  Gunna var prúð og áhugasöm í skóla en Arndís var stælótt og uppreisnagjörn.  Framan af sýndi Arndís talsverða yfirburði í æskueldhúsinu en til að byrja með einskorðaðist þetta við þriggjakornabrauð smurt með osti og borin fram með heitum vanillubúðing eða bláberjasúpu (allt úr pakka).  Í kringum árið 1990 fór þetta allt að þroskast, pasta með skinku og sveppum (úr dós) og rjómasósu var borið fram með hituðu hvítlauksbrauði, hvítlauk og púrrulauk var bætt í kjötsúpuna hennar ömmu (reyndar á þessum árum var hvítlauksdufti stráð yfir allt) og héldu systurnar að toppnum væri náð með gerð Toro lasagne með rjómaosti og fersku salati.  Á þessum tíma ákvað Gunna að stinga systur sína af og tók matseld föstum tökum.  Árið 2002 hélt Arndís reyndar að leikurinn væri tapaður þegar hún smakkaði á hefðbundnum mat sem Gunna eldaði fyrir þakkargjörðarhátíð.  En þá hljóp henni þá kapp í kinn og hefur hún verið að slaga upp í stóru systur með góðum skorpum.

Báðar elda talsvert en þær eru e.t.v með aðeins aðrar áherslur í eldamennsku. Arndís er ívið meira fyrir nýjungar og er e.t.v. á „hollari“ línuna og notar spelt,  mismunandi korn- og baunategundir, minnkar sykurmagn í uppskrift o.s.frv.  – á meðan Gunna fer að einhverju leyti hefðbundnari leiðir en hún hefur óbeit á kókosolíu, möndlumjöli, agave sírópi og þessu “öfgadrasli“ eins og hún orðar það.  Arndís breytir alltaf uppskriftum og stundum verður útkoman skrítin en hún hefur sjaldan úthald í að prófa sig áfram með sama hlutinn, nema brauðgerð.  Báðar baka súrdeig reglulega og heimagert múslí er oftast til á báðum heimilum.

En nú er komið að því að leyfa öðrum að meta stöðuna.  Komið hefur í ljós á seinni árum að þær eru kannski ekki svo ólíkar þegar til kastanna kemur.  T.d. hefur komið í ljós að þær hafa mjög mikið keppnisskap og nú verður keppt í matarbloggi!

Smellið hér til að sjá bloggin þeirra

Deila.