Guðrún Jenný bloggar: Tiramisú – ítalskt góðgæti

Eurovision söngvakeppnin var á dögunum  og af því tilefni var gerður þessi líka fíni eftirréttur.  Það hafði villst niður í innkaupakörfuna hjá mér í síðustu viku mascarpone ostur og ég ákvað að nota hann í þennan eftirrétt.

Það eru til fjöldamargar uppskriftir af tiramisú – sumar eru með eggjum og aðrar með rjómaosti.  Sumar mæla fyrir um romm eða líkjör og aðrar ekki.  Ég drekk ekki kaffi en mér finnst kaffibragðið samt sem áður gott.

En hér er uppskriftin:

  • 500 g mascarpone ostur
  • ¼ bolli sykur
  • 2 msk amaretto eða kahlúa
  • 1 bolli rjómi
  • 1 bolli sterkt kaffi (við stofuhita)
  • 24 ladyfingers kex (það er líka hægt að nota svampbotn)
  • Suðusúkkulaði
  • kakó

Þeytið saman ostinn og sykur og líkjör þangað til allt hefur blandast vel saman.  Þeytið rjómann í sérskál og blandið honum svo varlega saman við ostablönduna.

Dýfið kexinu ofan í kaffið og raðið því í botninn á fati – passið að bleyta þær ekki of mikið en þó ekki of lítið heldur – meðalvegurinn gullni sem oft er svo erfitt að rata!

Þegar þið eruð búin að þekja botninn á fatinu þá setjið þið helminginn af osta/rjómablöndunni ofan og dreifið vel úr.  Skafið suðusúkkulaði ofan á blönduna.  Raðið nú áfram ofan á kaffiblautu kexi þangað til að búið er að hylja alveg ostakremið og setjið þá restina af kreminu ofan á kexið og dreifið úr eins á fyrr.  Þá eruð þið komin með tvö lög af kexi og kremi.  Rífið suðusúkkulaði yfir.  Það er í sjálfu sér alveg nóg skraut en ef þið viljið frekar fá kakó ofan á ykkar tiramisú þá er um að gera að sigta það yfir.  Kælið nú í að minnsta kosti 2 klst áður en þið berið herlegheitin fram.

 

Deila.