Hallveig bloggar: Mínar ær (og kýr)

Ég hef aldrei skilið hvers vegna ekki er fjölbreyttara úrval afurða af uppáhalds spendýri okkar Íslendinga, sjálfri kindinni, í kjötborðum landsins. Lambahakk er síst verra en nautahakk í ýmsa rétti og í suma þeirra (eins og t.d. grískt Moussaka) töluvert betra, í indverskri og norður-afrískri matargerð er lambagúllas í aðalhlutverki og svo mætti lengi telja.
Því vil ég hér með hvetja kjötkaupmenn þessa lands til að bjóða okkur upp á þær Golsu og Botnu á fjölbreyttari hátt.

Eins má segja um þessar elskur að þær séu eins og góð vín og batni jafnvel með aldrinum. Hér á landi er nefnilega vanmetið hið stórkostlega hráefni kindakjöt.
Kjötið af eldri dýrunum er dekkra og bragðmeira og hentar ljómandi vel í allskyns frábæra rétti. Lundirnar er hægt að elda eins og lambalundir og þær eru meyrar og fínar en aðrir bitar henta geipivel í langeldaða rétti og gefa djúpt og krassandi bragð.
Kindakjöt fæst af og til í fínni matvöruverslunum og það er yfirleitt hægt að ganga að því vísu í sælkerahorni Vesturbæjar, Melabúðinni.

Í uppáhaldi hér á bæ er t.d. marokkóskt Kúskús með kindakjöti og svo uppskriftin sem ég læt fylgja með þessum pistli, Risotto með kindakjöti og basiliku. Þessi réttur er einstaklega bragðgóður og mjög barnvænn og það er alveg sama hversu mikið magn er eldað, það er alltaf borðuð hver einasta arða. Prófið bara!

Risotto með kindakjöti og basiliku

Hráefni:

  • 2 msk smjör
  • 2 msk góð ólívuolía
  • 200 gr blaðlaukur skorinn í sneiðar
  • 1-2 hvítlauksgeirar saxaðir smátt
  • 250 gr kindalundir eða fille
  • 2-3 vel þroskaðir tómatar, fræhreinsaðir og saxaðir
  • 100 ml þurrt hvítvín
  • maldon salt
  • nýmalaður pipar
  • nokkrir þræðir saffran
  • 300 gr arborio grjón
  • 1 lítri lambasoð
  • 3 msk rifinn parmigiano ostur
  • vænn bunki af ferskri basiliku, saxaður.

Smyrjið kjötið með góðri ólífuolíu, saltið, piprið og leggið til hliðar. Best er að kjötið sé við stofuhita.
Bræðið smjör og 1 msk olíu í þykkbotna potti og mýkið laukinn og hvítlaukinn, bætið svo hrísgrjónunum út í og hyljið með olíunni. Myljið saffranið yfir grjónin.
Hellið hvítvíninu út í og látið gufa upp af. Bætið soðinu smám saman út í, 1/2-1 ausu í senn og látið gufa vel upp af á milli. Hér er algjörlega nauðsynlegt að hafa hvítvínsglas við hönd og góða tónlist í eyrunum.
Eftir 10 mínútur er komið að því að bæta tómötunum saman við og fara að huga að kjötinu.

Steikið kjötið í 2 mínútur á hvorri hlið á snarpheitri pönnu. Vefjið því svo inn í álpappír og geymið þar til risottóið er við það að verða tilbúið.

Þegar hrísgrjónin eru búin að soga í sig allan vökvann (tekur um 15 mínútur í viðbót) er potturinn tekinn af og ostinum hrært saman við. Saltið og piprið eftir smekk, athugið þó að það getur verið að það sé óþarfi að bæta við.

Takið kjötið úr álpappírnum og sneiðið í hæfilega bita, blandið því svo saman við risottóið auk basilikunnar.

Berið fram með restinni af hvítvíninu og meiri nýrifnum parmigiano.

Deila.