Guðrún Jenný bloggar: Orkustangir

Ég var að taka til í eldhússkápunum hjá mér um daginn og rakst þar á heila krukku af möndlusmjöri, fullan poka af þurrkuðum apríkósum og nokkra átekna poka af hinu ýmsu fræjum. Þetta hráefni (ásamt nokkrum til viðbótar) gera fullkomnar orkustangir. Ég hafði nú einhvern veginn hugsað mér að strákarnir mínir gætu kippt þessu með sér í nesti eða fengið sér fyrir eða eftir íþróttaæfingu – en þetta féll nú í frekar grýttan jarðveg hjá þeim – líklega of hollt á bragðið. Mér finnst þær aftur á móti rosalega góðar og þarf virkilega að hemja mig og borða ekki yfir mig af þeim.
Uppskriftin er blanda af uppskrift sem ég fann á netinu og uppskrift úr bók Ingu Elsu Bergþórsdóttur og Gísla Egils Hrafnsonar, Góður matur – gott líf. Ef þið eigið ekki bækurnar eftir þau Ingu Elsu og Gísla Egil þá hvet ég ykkur eindregið til að fjárfesta í þeim – aldeilis frábærar uppskriftir og hugmyndir.

  • 120 g smjör
  • 120 g púðursykur
  • 150 möndlusmjör (hægt að nota hnetusmjör eða 200 g af stöppuðum bönunum)
  • 60 g agave síróp (já ég veit yfirleitt er það Arndís systir sem er með hráefni sem þetta en við tiltekina í eldhússkápunum kom í ljós stór dunkur af agave sírópi – auðvitað er hægt að nota hunang líka eða venjulegt síróp)
  • 250 g haframjöl
  • 75 g saxaðar þurrkaðar apríkósur (ég klippi þær í litla bita)
  • 75 g rúsínur
  • 75 g trönuber
  • 125 g blönduð fræ (ég var með sesamfræ, sólblómafræ og hörfræ)
  • 1 tsk kanill

Þið getið auðvitað notað aðra þurrkaða ávexti en þarna eru nefndir.

Ofninn er hitaðu í ca 150°C og ferkantað eldfast mót klætt með smjörpappír.
Bræðið smjörið, sykur, möndlusmjör og síróp saman við vægan hita í potti. Á meðan þetta mallar í pottinum þá setjið þið þurrefnin í stóra skál. Smjörblöndunni hellt yfir og allt blandað vel saman.
Formið er svo sett í ofninn og bakað í ca 25-30 mínútur. Látið þetta svo kólna alveg í mótinu áður en þið skerið í stangir/bita.

Deila.