Haukur Leifsson bloggar: Hinn skagfirski Gæðingur

Á bænum Útvík í Skagafirði reka Árni Hafstað og kona hans Birgitte lítið en afar framsækið brugghús. Það má með sanni segja að Gæðingur sé eitt virkasta brugghús landsins því frá stofnun árið 2011 hefur brugghúsið bruggað 14 mismunandi bjórtegundir. Þær hafa þó ekki allar ratað í hillur vínbúðanna en samhliða brugghúsinu reka hjónin Micro Bar í Reykjavík, þar sem allir bjórar Gæðings rata á krana.

Það var indælis veður á Útvík þegar Vínotek ásamt föruneyti heimsótti Árna. Brugghúsið sjálft er í lítilli smiðju rétt við íbúðarhúsið. Það er afar snyrtilegt og vel búið tækjum og tólum en Árni var nýlega búinn að koma fyrir nýjum gerjunartanki. Árni var sannarlega höfðingi heim að sækja og fræddi okkur um bjórana sína og stutta sögu brugghúsins.

20130713_184325

Gæðingur er sér á báti meðal míkró brugghúsa hér á landi. Brugghúsið var stofnað á sama grundvelli eins og svo mörg lítil brugghús vestanhafs, vegna áhuga á bjór og að taka heimabruggun á næsta stig. Árni og Jói bruggmeistari höfðu mikinn áhuga á heimabruggun. Þeir byrjuðu að brugga á bænum fyrir sjálfa sig og áður en þeir vissu af voru þeir farnir að sækja námskeið erlendis í bruggmennsku. Eftir nokkra bjóra eitt kvöldið kom þessi frábæra hugmynd, að stofna brugghús á bænum í Skagafirði. Síðan þá hefur þróunin verið mikil og þeir félagar sífellt leitað að leiðum til að endurbæta og búa til nýja bjóra.

Þegar þetta er skrifað að þá eru 5 Gæðingar í Vínbúðunum. Lager, Pale Ale, Stout, Tumi Humall IPA og svo hveitibjór. Árni var með allar þessar afurðir afar ferskar á staðnum og fengum við að smakka og skyggnast aðeins á bakvið tjöldin hvað varðar sögu þessara bjóra.

Fyrstur í röðinni var Gæðingur Lager. Lagerinn hefur verið í mikilli þróun frá stofnun brugghúsins og er Árni í fyrsta skipti mjög sáttur við hann. Hann var afar ferskur, frekar humlaður miðað við stílinn, með örlitlum sítrus keim og afar svalandi á þessum heita sumardegi. Að búa til góðan lager bjór er ekki auðvelt og þessi bjór bar af hvað varðar innlenda lager bjóra að mati undirritaðs. Næstur var Pale Ale en hann hefur verið söluhæsti bjór brugghúsins frá upphafi. Hann er frekar lítill, ekki nema 4,5% í áfengisstyrk en afar bragðmikill og góður. Hann er ósíaður, skemmtilega bitur miðað við stærð og er frábær Pale Ale sem ekki nær 5% í áfengisstyrk. Hann er góður „session“ bjór, þ.e. bjór sem hægt er að drekka marga af í einu en samt viðheldur ákveðnum gæðastaðli og góðu bragði. Afar vel heppnaður bjór. Næstur í röðinni var heitibjórinn. Hann er af þýskri fyrirmynd með smá „twisti“ en það er Þá var komið af flaggskipinu, Tuma Humal IPA, bjór sem hefur kætt bjórnörda Íslands. Tumi Humall, eins og lagerinn þeirra, hefur verið í stöðugri þróun frá því að hann var fyrst bruggaður. Að mati undirritaðs er hann að ná nýjum hæðum. Hann var lengi vel humlaður með humlum frá Nýja Sjálandi, sem gáfu góðan ávaxtakeim og eru mikið notaðir í bruggheiminum í dag. Á þessu ári hafa Árni og Jói fært bjórinn nær vesturströnd Bandaríkjanna, þar sem hinn ameríski IPA fæddist. Í dag er hann með bandarískum humlum sem gefa bjórnum mun ákveðnara bragð. Bjórinn er bitrari en viðheldur ávaxtakeim sem einna helst líkist örlitlum perukeim. Tumi Humall er frábær IPA og erum við Íslendingar heppnir að þessir þrír IPA bjórar sem brugghúsin bjóða uppá hér á landi eru allir afar góðir í alþjóðlegum samanburði.

Áður en lengra var haldið var ákveðið að skola bragðlaukana með Stout bjór þeirra Gæðingsmanna. Hann er hefðbundinn Stout með þó miklum ristuðum maltkeim, örlítilli sætu og smá biturleika. Hann er afar vel heppnaður og fyrir aðdáendur þessa bjórstíls eru það mikil forréttindi að hafa aðgang að honum allt árið um kring. Að lokum var síðan gætt á tilraunabruggi, amerísks Barley Wine. Það var vel humlað eins og stíllinn gerir ráð fyrir og afar bragðmikið og gott. Það verður spennandi að sjá hvað verður um það, og um leið áframhaldandi tilraunir Gæðings á mismunandi bjórstílum.

Það er mikill hugur í Árna og margt spennandi framundan hjá Gæðing. Hann er að feta sig út í að eima Viskí og það verður spennandi að sjá Gæðings Viskí úr Skagafirðinum eftir 10 ár. Brugghúsið er á miklu flugi og það er búið að vera afar spennandi að sjá þá prófa sig áfram með mismunandi bjórstíla en nýlega buðu þeir upp á belgískan Saison bjór á MicroBar.

Árni er skemmtilegur maður heim að sækja, hann hefur gríðarlegan áhuga á bjór og bjórmenningu og það er skemmtilegt að sjá svona brugghús í eign manna sem hafa ódrepandi áhuga á bruggmenningu.

Deila.