Guðrún Jenný bloggar: Bananabrauð með pekan hnetum og karamellu

Hvað gerir maður við ofurþroskaða banana þar sem hýðið er kolsvart? Eða þegar krukka með Dulce de Leche finnst inn í ísskáp? Bananabrauð á sunnudagseftirmiðdegi er góð hugmynd til að nýta þessar afurðir. Dulce de Leche er karamella sem búin er til úr sætri mjólk sbr. fróðleik sem má sjá með því að smella hér.

Krukka með þessu góðgæti rataði ofan í innkaupakörfuna hjá mér þegar ég fór einhvern tímann í „rannsóknarleiðangur“ í Kost í Kópavogi.

Þetta þarf í brauðið:

  • 3 vel þroskaða banana
  • 1 bolla sykur
  • 2 bolla hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 egg
  • 100 g pekan hnetur – grófsaxaðar
  • 1 dl Dulce de Leche karamella

Aðferðin er mjög einföld.

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Allt nema karamellan er sett í hrærivélaskál, munið að taka hýðið af bönunum fyrst! Og hrærið öllu vel saman. Deigið er svo sett í form sem passar fyrir deigið – ég nota aflangt silicone form frá Tupperware þá slepp ég við að smyrja formið.

Karamellan er hituð við vægan hita í potti þannig að hún mýkjist og þynnist aðeins. Henni er svo hellt ofan á deigið í forminu og hrærið henni lauslega saman við – allt í lagi þó hún blandist ekki að fullu við deigið.

bananabrauð

Formið inn í ofn og bakið brauðið í ca 50 mín – það er ágætt að stinga mjóum prjón í brauðið til að kanna hvort það sé fullbakað.

Mjög gott volgt úr ofninum með smjöri!

Deila.