Haukur bloggar: Bjór í Flórida

Íslendingar hafa flykkst til Florida alveg frá því að fyrsti íslendingurinn sagði hinum frá hitanum, ströndunum, Disney World og pálmatrjánum. En það er fleira í Florida en bara Disney World! Íslendingar eru e.t.v. ekki jafn kunnugir Suður-Flórida eins og Orlando en engu að síður búa margir íslendingar á svæðinu og strandlengjan frá Fort Lauderdale suður til Miami hefur mikið aðdráttarafl.

Í gegnum árin hafa Íslendingar ekki verið sérstaklega hrifnir af bandarískum bjór, en eftir að míkróbrugg menningin teygði sig til Íslands hefur það breyst. Á ferð minni um Flórida nýverið heimsótti ég Funky Buddha brugghúsið í Fort Lauderdale, hitti skemmtilega bjóráhugamenn og fræddist um sögu bjórs í Florida.

Lengi vel var Florida eitt versta ríki Bandaríkjanna varðandi bjórúrval. Florida var mikið út undan þegar kom að dreifingu „craft“ bjóra en á síðustu árum hefur bjórmenning Florida tekið svo miklum hamskiptum að eiginlega er hægt að tala um byltingu. Á miðjum þar síðasta áratug var Florida frægt fyrir að vera nánast eyðimörk í miðjum uppgangi míkróbruggmenningu Bandaríkjanna og risinn Anhauser Busch, framleiðandi Budweiser og fleiri bjóra, réði nánast markaðnum í Florida. Það var ekki tilkomið vegna smekks Floridabúa heldur fáranlegra laga sem settu voru árið 1965. Lögin gerðu flöskur sem ekki voru 8,12,16 og 32 únsur ólöglegar. Þetta gerði það að verkum að svokallaðir „bombers“ ( sem er notað yfir 22 únsu flöskur) voru ólöglegir og innflutningur á þeim í ríkið bannaður. Þetta kom ílla við bjórmenningu þar sem flest míkróbrugghús í Bandaríkjunum selja flesta sína bjóra annaðhvort í kippum eða „bombers“. Mikið af árstíðabundnum bjórum koma einungis í „bomber“ og því gerðu þessi lög míkróbrugg iðnaðinum afar erfitt að selja bjór sinn í Florida. Og það kom ekki bara ílla við innlenda míkróbruggiðnaðinn heldur voru erlendir bjórar sömuleiðis ólöglegir, þar sem bestu bjórar Belgíu voru aðallega fluttir til Bandaríkjanna í 750 ml flöskum. Um miðjan síðasta áratug, eftir miklar umræður á þingi, voru þessi lög loks afnumin og loksins gat fólk í Florida nálgast góðan bjór, sama í hvaða umbúðum hann var.

Eftir að lögin voru afnumin að þá fjölgaði brugghúsum í Florida hratt. Nokkur voru til en ekkert sem vakti mikla athygli í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Þetta breyttist allt árið 2008 þegar Cigar City Brewing í Tampa var stofnað. Joe Redner, eigandi brugghúsins, var með aðeins eitt markmið þegar hann stofnaði það, það var að gera besta bjór í heimi. Joe hafði orðið ástfanginn af bjórmenningunni í Oregon skömmu áður, en þar eru IPA bjórar teygaðir eins og vatn. Humlar vaxa nánast í bakgörðum fólks og mikill fjöldi fólks kann að meta stóra og mikla bjóra. Þetta fannst Joe vera spennandi og nokkrum árum seinna tók hann stökkið úr heimabruggun og stofnaði sitt eigið brugghús. Það leið ekki á löngu fyrr en Cigar City-bjórarnir voru orðnir afar frægir og eftirsóttir.

Þeir brugga mikið af mismunandi bjórstílum í litlum einingum og leggja mikla áherslu á árstíðabundna bjóra og tilraunir með bjórstíla. Skv Ratebeer.com eru þeir í dag 4. besta brugghús í heiminum og hafa bruggað yfir 500 mismunandi bjóra. Einn eftirsóttasti bjór í heimi er frá þeim, en það er Cigar City Hunahpu. Einu sinni á ári bíða hundruð manna í röð yfir nótt til að komast yfir hann. Það er ekki bara Hunahpu sem er eftirsóttur, heldur má nánast setja hvern einasta bjór þeirra undir sama hatt, það er afar erfitt að komast yfir bjóra frá þeim utan brugghúsins. Undirritaður þurfti að leggja mikið á sig til að verða sér út um eftirsóttar flöskur frá þeim, enda staðsettur langt frá Tampa en þökk sé góðum og hjálpsömum bjóráhugamönnum í Suður Florida komust nokkrar flöskur með heim til Íslands sem útilokað var að verða sér úti um í áfengisverslunum.

Tampa er á mikilli uppleið sem bjórborg og í Gulfport skammt frá Tampa er að finna annað áhugavert brugghús. Peg´s Cantina hafa farið mikinn á árinu og Imperial Stout bjórar þeirra, G.O.O.D. Rare DOS og G.O.O.D. RareR DOS hafa verið með allra eftirsóttustu bjórum meðal bjórnörda vestanhafs. Peg´s Cantina er bruggpöbb og því ómögulegt að nálgast bjóra þeirra nema á staðnum sjálfum.

En nú að Suður Florida! Funky Buddha er brugghús í Fort Lauderdale með áhugaverða sögu. Brugghúsið var ekki brugghús til að byrja með, heldur bar sem staðsettur var í Boca Raton. Og barinn var ekki bar í upphafi heldur te hús. Ryan Letz keypti te húsið árið 2007 og breytti því smá saman í bjórbar þar sem hann vildi bjóða upp á eðalbjóra sem erfitt var að fá á svæðinu. Barinn sló í gegn og það leið ekki á löngu fyrr en hann ákvað að færa heimabrugg sitt yfir á barinn. Úr varð lítill og skemmtilegur bruggpöbb þar sem Ryan reyndi að nýta sér hráefni af svæðinu sjálfu til hins ýtrasta. Hann notaði romm tunnur til að geyma bjór í, appelsínur sem hráefni í öl og engifer svo eitthvað sé nefnt. Það var svo árið 2010 þegar tilraun í brugghúsinu kom Funky Buddha á kortið. Ryan notaði Maple sýróp í stout bjór og viðtökurnar voru gríðarlega góðar. Samskiptamiðlar loguðu og bjóráhugamenn áttu ekki til orð yfir þessum bjór. Besti „sweet stout“ heims (skv Ratebeer.com) var fæddur. Eftirspurn eftir bjórum frá Funky Buddha varð gríðarleg og á þessu ári opnaði Funky Buddha brugghús í Fort Lauderdale.

Á heitum fimmtudegi heimsótti undirritaður brugghúsið. Salurinn sem hýsir barinn er risavaxinn, og á bakvið glerveggi sést inn í brugghúsið sjálft. Það er talsverð “rótering” á bjórunum sem eru bruggaðir, margir eru bara bruggaðir kannski einu sinni á ári á meðan að aðrir eru bruggaðir allan ársins hring. Það var því talsverð heppni að fá að smakka á besta brúnöli heims (skv Ratebeer.com), No Crusts!.

Þeir sem eru kunnugir bandarískri menningu vita eflaust hvað “no crusts” þýðir en hér er átt við samloku, án skorpu, með hnetusmjöri og hlaupi (peanut butter and jelly). Bjórinn ber mikinn keim af þess konar samloku, hann er að brúnn að lit með lítilli froðu. Talsverð lykt af hnetum, malti og berjum. Hann er örlítið ristaður, hnetusmjörið er áberandi og ber einnig smá keim af kakói og greip. Ekkert sérlega þungur en ákaflega bragðmikill. Hreint útsagt frábær bjór. Á boðstólum var einnig lítill hveitibjór, bragðbættur í gerjun með gúrkum og basil. Hann var ekki hár í áfengi og gríðarlega svalandi á þessum heita sumardegi. Annar skemmtilegur bjór sem smakkaður var Berliner Weisse, sem hét því skemmtilega nafni Achtung Daddy! Ákaflega þurr, örlítið súr en ekki minna svalandi en hveitibjórinn. Einnig hafa Funky Buddha komið sér upp góðu orðspori vegna IPA bjórsins sem þeir framleiða allt árið, sem heitir ekki minna skemmtilegu nafni, Hop Gun. Hann er ekki jafn bitur og bræður hans á vesturströndinni en ber mikinn ávaxtakeim af t.d. greip og stjörnuávexti.

Eins og lýsingar benda til að þá er Funky Buddha sérkennilegt brugghús með talsverða sérstöðu þegar kemur að bjórtegundum og tilraunir með mismunandi bjórstíla og bragð. Það er hreinlega ekki hægt að sleppa að heimsækja þá ef leiðir liggja til Suður Florida.

Deila.