Jólabjórs umfjöllun: Anchor Special Ale

Æði hefur runnið á landann og fólk keppist við að smakka alla jólabjórana í ár, segir Haukur Leifsson sem hér fjallar um jólabjórinn Anchor Special Ale.

Í umfjöllun okkar um jólabjórana vantaði einstaklega góðan bjór en það er Anchor Special, einn frægasti og margrómaði jólabjór Bandaríkjanna.

Anchor er brugghús í San Francisco. Það eru áhugavert fyrir þær sakir að það eru eitt elsta “craft” brugghús Bandaríkjanna og tilheyrði ekki “craft” sprengingunni í kringum 1980. Brugghúsið var stofnað árið 1896 en hefur verið rekið í núverandi mynd frá 1965 en saga þess er efni í annan pistil.

Anchor Special kom fyrst á markað árið 1975 og hefur bjórinn verið fáanlegur á hverju ári síðan þá. Í grunninn er bjórinn ávallt sá sami. Breytingar eru samt gerðar á hráefni ár frá ári og því er ætlunin að bjórinn sé aldrei eins. Anchor Special er dökkt kryddað öl, með jólalegri lykt sem einkennist af kanil, múskat og negul. Á tungu er hann bragðmikill en í senn nokkuð léttur og því ekki mjög krefjandi þrátt fyrir mikið bragð. Hann er fínn matarbjór og er einnig mjög góður einn og sér. Kryddtónarnir eru í góðu jafnvægi við bæði maltið og humlana, og finna má örlitla púrtvíns- og barkartóna í eftirbragði.

Þess má geta að miðinn á flöskunni breytist á hverju ári, en frá upphafi hefur listamaðurinn James Stitt teiknað mismunandi tré fyrir Anchor.

Klassískur jólabjór.

Deila.