LKL-kjúklingur með Chorizo

Það er mikill fengur að því að geta fengið spænskar Chorizo-pylsur í búðum og þær er hægt að nota á fjölbreyttan hátt. Það er einmitt Chorizo sem gefur mesta bragðið í þessum rétti ásamt indónesíska chilimaukinu Sambal Oelek, sem einnig má fá í flestum verslunum.  Við mælum með því að nota heilar Chorizo sem þú skerð sjálfur niður í grófa bita fremur en Chorizo sem búið er að skera niður í áleggssneiðar. Bragðmikill réttur í anda LKL.

  • 800 g kjúklingabringur eða læri
  • 1 Chorizo-pylsa (ca 150 g)
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 laukur, saxaður
  • 1 paprika, söxuð
  • 3 -4 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 1 msk Sambal Oelek
  • 1 lítil dós tómatapúrra

Skerið kjúklinginn í bita. Skerið Chorizo-pylsuna í bita.

Hitið olíu á pönnu. Mýkið laukinn  í 2-3 mínútur og bætið síðan kjúklingnum, pylsubitunum papriku og hvítlauk út á. Steikið á rúmlega miðlungshita í 4-5 mínútur. Hrærið tómatapúrrunni saman við. Hrærið rjóma og sýrðum rjóma saman við. Látið malla á miðlungshita í um 15 mínútur þar til sósan er farin að þykkna.

Berið fram. (Þeir sem ekki eru að hugsa um LKL geta síðan auðvitað haft kolvetni að eigin vali með – t.d. pasta eða hrísgrjón).

Með þessu má hafa ferskt nýjaheims-Chardonnay á borð við Trivento Chardonnay.

Fleiri uppskriftir með Chorizo má finna hér.

 

Deila.