Kjúklingur með ítalskri fyllingu

Góðgæti úr ítalska eldhúsinu, pancetta og pecorino er hér notað ásamt spínati til að gera kjúklng að algjörum veislumat.

  • 1 kjúklingur bitaður í fjóra bita
  • 1 poki spínat
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 100 g pancetta, skorið í litla teninga
  • 75 g Pecorino, rifinn
  • 1 dós Mascarpone
  • nýmulinn pipar

Byrjið á því að búta kjúklinginn í fjóra bita. Skerið væna rauf inn í bringur og læri til að búa til „vasa“ fyrir fyllinguna.

Hitið um 1 msk af vatni á pönnu. Hellið úr spínatpokanum á pönnuna. Veltið spínatinu um á pönnunni á meðan það er að skreppa saman. Takið af pönnu, leyfið að kólna aðeins, kreystið vatnið úr að mestu og saxið gróft.

IMG_9446Skerið pancetta (eða beikon) í teninga. Rífið niður ostinn.

Steikið pancettateningana á pönnu í 2-3 mínútur. Bætið lauknum út á og mýkið með. Setjið nú spínatið, pecorinoostinn og mascarpone-ostinn á pönnuna og blandið vel saman við. Piprið.

Setjið blönduna inn í hólfin sem þið skáruð í bringurnar og lærin. Það er ágætt að loka með tannstönglum. Setjið aftur á pönnuna og inn í 200 gráðu heitan ofn. Eldið í um 25-30 mínútur.

Næsta skref er að gera sósu með.

  • 1 dl hvítvín
  • 1,5 dl rjómi
  • skvetta af balsamikediki

Takið kjúklingabitana af og haldið heitum undir álpappír. Setjið pönnuna á eldavélina og byrjið á því að hella góðri skvettu af balsamikediki á pönnuna. Sjóðið aðeins niður og hellið þá hvítvíni út á. Leysið upp skófar sem hafa fests við botninn. Sjóðiið niður um helming. Bætið rjóma saman við og sjóðið þar til fer að þykkna.

Berið kjúklingabitana fram með sósunni og kartöflumús eða fetamús.

Deila.