Andarbringur með perum

Önd með ávöxtum er að finna í eldhúsi margra þjóða Evrópu og ekki síst í Mið-Evrópu þaðan sem þessi uppskrift er komin er fyrir því löng hefð allt aftur á miðaldir eða lengur að elda öndina með þessum hætti. Hér eru það perur sem gefa sýru og sætu í réttinn. Hann nýtur sín allra best með því að nota perubrandí á borð við Poire Williams í sósuna en það má einnig nota venjulegt brandí, koníak eða jafnvel dökkt romm.

  • 2 andarbringur
  • 4 skallottulaukar
  • 4 þroskaðar perur
  • 2 msk timjan
  • 1 msk fennelfræ
  • 1 dl Poire Williams eða brandí
  • 1 dl balsamikedik

Flettið húðinni af andarbringunum og skerið hana í litla teninga. Kryddið vöðvana sem eftir sitja með timjan.

Hitið pönnu og steikið húðbitana. Það þarf ekki smjör eða olía þar sem að næg fita er á bitunum. Steikið á miðlungshita þar til að þeir eru orðnir stökkir. Takið þá bitana af pönnunni og leggið til þerris á eldhúspappír.

Fínsaxið skallottulaukana. Flysjið perurnar, kjarnhreinsið og skerið í litla teninga. Hitið andarfituna í pönnunni. Steikið laukinn, fennelfræin og perubitana í 2-3 mínútur. Bætið þá brandí og balsamikedik út á pönnuna og látið malla þar til að perubitarnir eru orðnir mjúkir. Bragðið til með salti og pipar og geymið.

Setjið sjálfar bringarna á fat og eldið í ofni við 200 gráður í um 8-10 mínútur. Takið úr ofninum. Saltið og piprið og leyfið að jafna sig í nokkrar mínútur.

Sneiðið bringurnar niður. Setjið skammt af perum á diska. Sneiðar af andarbringu yfir og loks stökka teninga. Það er líka gott að hafa pönnusteiktar kartöflur með.

Rauðvínið með má alveg vera kröftugt og flott eins og t.d. Emilio Moro frá Ribera del Duero.

Fleiri uppskriftir með andarbringum finnið þið hér.

 

 

 

Deila.