Altano Douro 2011

Það hvaða nafn menn tengja við ána sem rennur til hafs í Porto fer líklega eftir því hvort að menn eru meira fyrir rauðvín eða portvín. Rauðvínsfólkið tengir hana eflaust við Ribera del Duero á Spáni en portvínsfólkið við Douro í Portúgal þaðan sem portvínin koma.  Síðustu tvo áratugina eða svo hefur hins vegar framleiðsla hefðbundinna rauðvína verið að aukast í Douro og í dag er þetta með athyglisverðustu víngerðarsvæðum í Evrópu.

Altano er framleitt af Symington-fjölskyldunni og þetta eru að uppistöðu sömu þrúgur og í portvínum, enda kannski engin furða, þetta er fjölskyldan á bak við portvín á borð við Warre’s, Graham’s og fleiri þekkt merki. 2011 árgangurinn var afbragð í Douro sem sést vel hér.

Mjög dökkt, ungt, áfengt, mjúkur, sultukenndur ilmur þar sem blandast saman bláber, sólber og plómur, töluverð vanilla og krydd, dökkt, brennt kaffi. Mjúkara en maður á von á með þéttri tannískri uppbyggingu.

1.998 krónur. Frábært vín í þessum verðflokki.

Deila.