Haukur Heiðar: Hoegaarden, hinn uprunalegi hveitibjór Belga

Það má eiginlega segja að Hoegaarden sé hinn upprunalegi belgíski hveitibjór en bjórstíllinn var næstum útdauður eftir seinni heimstyrjöld. Um tíma voru 30 brugghús í og í kringum þorpið Hoegaarden í Belgíu en á 6. áratug síðustu aldar var ekkert þeirra eftir. Seinni heimstyrjöldin hafði tekið sinn toll og lager bjórar voru að færa sig upp á skaftið í Evrópu. Í þorpinu bjó ungur maður að nafni Pierre Celis sem hafði unnið í síðasta brugghúsi þorpsins. Hann hafði lært að gera belgískan hveitibjór í störfum sínum í brugghúsinu og ákvað árið 1967 að reyna að endurlífga bjórstílinn sem þorpið var svo frægt fyrir. Bjórinn sem hann gerði var hveitibjór með koríander og appelsínuberki, sem seinna meir varð fyrirmynd allra belgískra hveitibjóra og bjórstílnum var bjargað.

Eftir mikinn eld árið 1985 fékk Pierre Celis hjálp frá stórum brugghúsum í Belgíu og rétti Stella Artois honum hjálparhönd. Á endanum var Celis gamli keyptur úr fyrirtækinu árið 1987 en þá var Stella Artois í eigu fyrirtækisins InterBrew og að sögn Celis höfðu “peningamennirnir tekið við fyrirtækinu”. Reyndar átti Pierre Celis eftir að gera garðinn frægan í Bandaríkjunum en það er efni í annan pistil.

InterBrew (sem heitir í dag InBev) hélt áfram að brugga Hoegaarden en komst í fréttirnar árið 2005 þegar það stóð til að hætta að brugga bjórinn í Hoegaarden. Þorpsbúar sættu sig ekki við það og á endanum varð bruggrisinn að játa sig sigraðan gegn íbúum Hoegaarden og í dag er bjórinn ennþá bruggaður að mestu leyti í Hoegaarden.

Hoegaarden heldur áfram að vera hátt metinn bjór þrátt fyrir að einhverjir vilja halda því fram að bragðið hafi breyst með árunum. Hoegaarden var einn af fyrstu belgísku bjórunum sem ég smakkaði seint á síðustu öld og er hann því mér hjartakær. Reyndar var það svo að í mörg ár að bjórinn seldist illa og um tíma var hann ekki fáanlegur á Íslandi. En í dag eru breyttir tímar og Hoegaarden orðinn vinsæll bjór á Íslandi.

Hoegaarden er hinn fínasti sumarbjór og nýtur sín best á heitum og sólríkum dögum. Í glasi er hann skýjaður með þéttum en litlum haus. Sítrusávextir eru áberandi í nefi og í munni er bjórinn léttur. Í eftirbragði má finna örlitla kryddtóna ásamt sítrus. Örlítið þurr ending. Í sannleika sagt er næstum erfitt að finna eins svalandi bjór á góðum sumardegi.

Deila.