Haukur Heiðar: Kaldi Sumarbjór

Síðastur í sumarbjóra umfjölluninni er Kaldi Sumarbjór. Það má segja að Kaldi sé viss frumkvöðull. Þetta var fyrsta brugghúsið sem tók slaginn við stóru brugghúsin og sannaði hér gætu þrifist önnur og minni brugghús en Ölgerðin og Vífilfell. Reyndar hefur velgengnin verið svo mikil hjá Kalda að þau hafa stækkað ár frá ári og eru að selja langmest af bjór í flöskum af öllum íslensku brugghúsunum.

Í ár koma þeir með uppfærða uppskrift af sumarbjórnum síðan í fyrra. Í grunninn er þetta þýskur hveitibjór en hefur tiltölulega lága áfengisprósentu miðað við bjórstílinn. Bjórinn lítur vel út í glasi, freyðir vel eins og hveitibjór sæmir. Í nefi má finna banana og sítrónur. Þrátt fyrir að vera frekar lágur í áfengisprósentu er bjórinn ekki of léttur á tungu. Hér er gerið í aðalhlutverki og mest má finna fyrir bragði af banana, sem er algengt með góða þýska hveitibjóra. Hér er á ferðinni hinn fínasti sumarbjór sem heldur í sumarbjórshefðina með því að vera afar svalandi og léttur í senn.

Deila.