Hildigunnur bloggar – Rifsberjakjúklingur

Nokkrar uppskriftanna sem ég nota eru bara gerðar einu sinni á ári. Í gær eldaði ég þennan kjúklingarétt með rifsberjum úr garðinum og í kvöld verður sveppapasta með nýtíndum furu- og lerkisveppum (meira um það á morgun).

Veiddi þennan rétt úr dönsku blaði fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna en hann er vel þess virði að prófa.

fyrir 4
2 bakkar kjúklingabitar (ekki bringur)
15 g smjör
salt og pipar
1 lítill laukur, skorinn í teninga
100 g. rifsber
2 dl kjúklingasoð
1-2 tsk púðursykur
1/2 dl rjómi (má vera kaffi- eða matreiðslurjómi)
1 tsk maízenamjöl

Brúnið kjúklingabitana vel á heitri pönnu í smjörinu. Kryddið með salti og pipar (pipri?) Takið kjúklinginn af pönnunni og steikið laukinn. Setjið kjúklinginn aftur í pönnuna ásamt rifsberjum og soði. Látið malla undir loki í 35-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Takið bitana af pönnunni og haldið heitum. Hrærið saman rjóma og maízena og þykkið sósuna með blöndunni (í uppskriftinni er talað um að sía soðið í annan pott og þykkja þannig en mér finnst bara fínt að hafa laukinn og berin áfram í sósunni). Smakkið til með púðursykri, salti og pipar.

Berist fram með hrísgrjónum og góðu salati. Ekki verra að hafa líka gott hvítvín með. Við vorum með Montes Chardonnay og það smellpassaði.

Deila.